Við erum stödd í langhlaupi í glímunni við COVID-heimsfaraldurinn. Samfélagið okkar hefur staðið sig vel frá því í mars við að takmarka útbreiðslu veirunnar með samstilltu átaki og það hefur skilað okkur því að tíðni smita og dauðsfalla hefur verið mun minni en víðast í kringum okkur. Engu að síður er glíman krefjandi og áhyggjur starfsfólks mjög skiljanlegar af því að í grunnþjónustu okkar eins og skólum og velferðarstofnunum séu menn útsettari fyrir veirunni en annars staðar.

Í skóla og frístundaráði Reykjavíkur fylgjumst við vel með stöðu mála í faraldrinum og á síðasta fundi fengum við þremenningana: Þórólf Guðnason sóttvarnalækni, Víði Reynisson yfirlögregluþjón og Jón Viðar Matthíasson, framkvæmdastjóra almannavarna á höfuðborgarsvæðinu, til að fara yfir stöðuna. Þar kom fram að smit innan leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs hafa verið mjög fá og mun færri en í samfélaginu almennt. Frekar hefur borið á því að smit hafi borist inn í skólana utan frá. Þá verða börn fyrir mun minni áhrifum af veirunni en fullorðnir og innlagnir barna á spítala eru hverfandi.

Afburðaframlag starfsfólks

Það hefur verið frábært að fylgjast með starfsfólki leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva borgarinnar undanfarna mánuði, hve vel það hefur staðið sig við krefjandi aðstæður við að leysa úr óvenjulegum aðstæðum og leggja sig fram um að halda vel utan um börnin og halda úti sem mest reglubundnu starfi þrátt fyrir faraldurinn. Við erum stolt af okkar fólki, stjórnendum og starfsfólki fyrir sitt afburðaframlag og sömuleiðis börnunum og foreldrum þeirra fyrir úthaldið, þolinmæðina og umburðarlyndið.

Kjarni málsins er sá að stefnan sem mörkuð var í vor að halda skólunum opnum til að lama ekki samfélagið var rétt, við styðjum hana heils hugar og munum fylgja henni áfram nema gjörbreytt staða komi upp í útbreiðslu veirunnar. Við höldum okkar striki, stöndum áfram saman og þá mun leiðin klárlega liggja upp á komandi vikum.