Ríkisstjórnin, með Ásmund Einar Daðason barnamálaráðherra í broddi fylkingar, á hrós skilið fyrir að halda skólum opnum þrátt fyrir að sóttvarnalæknir hafi lagt til að þeim yrði lokað tímabundið vegna þess hve plágan er útbreidd hér á landi.

Það er börnum og ungmennum afar mikilvægt. Þau þurfa rútínu og félagslega örvun. Börn og unglingar hafa fært miklar fórnir í heimsfaraldri Covid-19 en veiran er ekki hættuleg heilbrigðum börnum. Hafa ber í huga að umferðin er þeim hættulegri.

Það er krefjandi – og mikilvægt – að vera kennari. Og starfið er enn strembnara í heimsfaraldrinum. Kennarastéttinni mega hins vegar ekki fallast hendur frammi fyrir áskoruninni. Hún hefur framtíð fjölda barna í höndum sér.

Það skiptir enn meira máli fyrir börn sem standa höllum fæti að halda skólum opnum en fyrir börn sem standa vel að vígi. Börn sem alast upp í hlýjum fjölskyldufaðmi þar sem bækur eru hafðar í hávegum og nóg er til hnífs og skeiðar hafa forskot í skólakerfinu á þau börn sem ekki eru jafnheppin. Ef skólum verður lokað – og þetta á líka við um framhaldsskóla – mun bilið á milli hópanna tveggja að öllum líkindum breikka.

Skólalokanir sem vara í einhvern tíma og fjarnám geta leitt til þess að hópur barna sækir sér minni menntun þegar fram í sækir vegna þess að þau drógust aftur úr í Covid-19. Þau gætu þar af leiðandi átt erfiðara uppdráttar í atvinnulífinu síðar meir. Þekkt er að skólaganga stuðlar að jöfnum tækifærum.

Að sama skapi er ekki hollt fyrir börn foreldra sem þurfa að sinna vinnu, að ungviðinu sé stillt upp fyrir framan sjónvarp eða tölvu tímunum saman. Það er ekki merki um að foreldrum sé ekki annt um börn sín heldur er einfaldlega verið að troða marvaða á erfiðum tímum.

Það er betra að börn eigi sóttkví eða smit á hættu þegar þau mæta í skóla heldur en að skikka þau í slíkt með því að halda þeim fjarri skólastarfinu. Það voru því ekki byrjendamistök hjá barnamálaráðherra að halda skólum opnum, eins og formaður Félags grunnskólakennara hafði á orði, heldur mikilvægt skref fyrir börnin.