Íslendingar báru gæfu til að ráðast í vægari sóttvarnaaðgerðir vegna veirufaraldursins en flest önnur ríki. Markmiðið með þeim hefur verið að „fletja kúrfuna“ til að lágmarka álagið á heilbrigðiskerfið og vernda um leið viðkvæmustu hópa samfélagsins á meðan við þurfum að lifa með veirunni um fyrirsjáanlega framtíð – en ekki að reyna að útrýma henni. Það er enda með öllu óraunhæft. Okkur hefur tekist býsna vel upp. Þótt smituðum hafi tekið að fjölga á ný fyrr í sumar, sem var viðbúið, virðist þessi nýja bylgja ætla að vera minna skaðleg og að búið sé að ná tökum á útbreiðslunni. Fá tilfelli hafa komið upp eftir að liðkað var fyrir ferðalögum fólks til og frá landinu með skimun við landamærin, sem var rétt ákvörðun, og þeir sem smitast eru í langflestum tilfellum með mjög væg sjúkdómseinkenni. Engin ástæða er til að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi með harðari aðgerðum gagnvart komum ferðamanna.

Sumir hagfræðingar hafa reiknað sig niður á þá niðurstöðu að það sé efnahagslega skynsamlegt að hafa landið í reynd lokað. Það eru furðuleg rök. Látum liggja milli hluta þá staðreynd að aðeins um 40 tilfelli af virku smiti hafa greinst við landamærin í um 90 þúsund teknum sýnum sem er í samræmi við málflutning sóttvarnalæknis um að erlendum ferðamönnum fylgi lítil áhætta. Að hafa landið opið, með ákveðnum varúðarráðstöfunum, er afar mikils virði og skiptir ekki aðeins máli gagnvart hagsmunum ferðaþjónustunnar heldur einnig fyrir aðrar tengdar atvinnugreinar – og þá um leið lífsviðurværi þúsunda fjölskyldna sem að öðrum kosti horfa upp á atvinnuleysi og gríðarlegan tekjumissi. Það er ekki léttvægt mál.

Margir eru með kvíða og ótta vegna ástandsins, meiri en kannski efni standa til miðað við hættuna. Sýna verður því fólki skilning, ekki síst með því að ala ekki að óþörfu á hræðsluáróðri, en sjónarmið þeirra eiga ekki að ráða för við ákvarðanir stjórnvalda. Það á ekki að vera valkostur að kveikja og slökkva á samfélaginu á víxl hér næstu misserin þrátt fyrir að veiran muni birtast af og til. Hún er ekkert á förum. Þau skilaboð þurfa að heyrast meira og skýrar frá stjórnvöldum. Víðtækar skerðingar, hvort sem er á ferðafrelsi eða starfsemi fyrirtækja, hafa skaðlegar afleiðingar til lengri tíma fyrir heilsu og líðan fólks með auknu atvinnuleysi og fátækt. Sóttvarnasjónarmið hafa skiljanlega verið í forgrunni en það er ekki síður mikilvægt að horfa til efnahags- og félagslegra sjónarmiða.

Samstarf ríkisstjórnarinnar og sóttvarnayfirvalda hefur gengið vel. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, sem við sem þjóð höfum verið heppin að hafa í stafni við þessar aðstæður, hefur réttilega sagt að nú sé komið að stjórnmálamönnum að taka ákvarðanir. Valdið og ábyrgðin er þeirra og valkostirnir sem þeir standa frammi fyrir eru misslæmir. Í stað þess að ráðast í íþyngjandi aðgerðir sem skerða stórkostlega athafnafrelsi fólks og fyrirtækja og mannréttindi, sem of lítið er hugað að á þessum tímum, ætti áherslan að vera á hóflegar sóttvarnaaðgerðir og einstaklingsbundnar smitvarnir. Við megum ekki stjórnast af óttanum einum þannig að viðbrögðin fari að valda meiri skaða en veiran sjálf.