Í kosningunum á morgun verður kosið um áframhaldandi stöðugleika, velferð og markvissa uppbyggingu í Hafnarfirði. Kosið um áframhaldandi farsæld og festu við fjármálastjórnun bæjarins. Við Sjálfstæðismenn höfum lagt okkur öll fram við að vinna að framgangi og heill bæjarins. Í þjónustukönnunum kemur fram að 90% bæjarbúa eru ánægð með bæinn. Við höfum getað haldið álögum og gjöldum á bæjarbúa niðri en um leið eflt þjónustuna á hinum ýmsu sviðum. Núverandi meirihluti hefur samhentur og markvisst unnið að því að draga úr skuldum bæjarins og koma öllum skuldamælikvörðum í lag. Er nú svo komið að skuldahlutfall og skuldaviðmið bæjarins hefur ekki verið lægra í áratugi.

Blómstrandi bær

Það er gróska á öllum sviðum í Hafnarfirði. Bærinn er hreinn og snyrtilegur og öll starfsemi bæjarins mjög skilvirk. Menningin og mannlífið blómstrar. Nýtt atvinnuhúsnæði rís upp í bænum af miklum krafti en á milli ára hefur orðið fjórföldun í sölu atvinnulóða. Reikna má með að á næstu tveimur árum muni störfum því fjölga um 1500 manns. Það munar um minna. Þá er mikil fjölgun bæjarbúa fram undan en yfir 1000 íbúðir eru nú í byggingu og annað eins á teikniborðinu. Áætlað er að á næstu fimm árum fjölgi bæjarbúum um 7500 manns.

Bjartir tímar fram undan

Á komandi uppbyggingartímum er mikilvægt að vel sé haldið um stjórnartaumana í bænum. Kosningarnar á morgun eru einhverjar þær mikilvægustu í áratugi fyrir okkur Hafnfirðinga. Atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum í kosningunum er atkvæði greitt áframhaldandi uppbyggingu og eflingu bæjarins. Ég mun leggja mig alla fram ásamt meðframbjóðendum mínum við að tryggja áframhaldandi vöxt og viðgang bæjarins okkar.

Kæru Hafnfirðingar, kjósum Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum á morgun. XD.