Af því að enginn hefur boðið mér í EM-stofuna til að kryfja árangur Íslands finnst mér rétt og eðlilegt að leggja nokkur orð í belg. Stóra málið er auðvitað Guðmundur Guðmundsson. Mínímalískur í gleðinni en þeim mun stærri sem þjálfari.

Eftir ævintýralegan sigur á Dönum, heimsmeisturum og Ólympíumeisturunum sjálfum, mátti þegar vel var að gáð sjá að þar leyndist örla á glotti á Guðmundi. Í hægri endursýningu á sjónvarpsviðtali mátti ráða í einhver svipbrigði og eftir að búturinn hafði verið spilaður löturhægt nokkrum sinnum gátum við heima nánast fullyrt að þarna sæjust brosviprur. Þessi yfirvegun, þetta sjálfstraust og þessi hógværð vill mín EM-stofa meina að sé lykillinn að árangri hans. Góður vinur minn sagði að Guðmundur væri karakterinn sem allir menn vilja vera og karakterinn sem allar konur vilja vera með. Þessu verður ekki harðlega mótmælt.

Þjóðin heima var að bilast úr gleði. Guðmundur sagðist vera nokkuð ánægður með leikinn. Fimm mínútum eftir sigurinn taldi hann eðlilega rétt að benda á að fram undan væri erfiður leikur. Þar var hugur hans. Eðlilega geta flestar EM-stofur á heimilum landsmanna ekki litið fram hjá sögunni af sambandi Guðmundar við Danmörku, sem er um leið auðvitað saga allra Íslendinga. Nafnlaus könnun myndi alltaf leiða í ljós að því fylgdi kátína að sigra heimsmeistarana en dæmalaus kátína vegna þess að heimsmeistararnir voru Danir.

Þessi stóri bróðir sem er bara bróðir þegar vel gengur. Með sigrinum á Dönum sýndi Guðmundur að hefndin er best serveruð köld. Guðmundur hefur með árangri liðsins samt aðallega sýnt okkur að besta svarið við ódrengilegri framkomu er að brillera sjálfur. Um það snýst málið auðvitað, að þessi maður hefur þá þætti í sínum karakter að liðið brillerar.