Ríkisstjórn og sóttvarnayfirvöld hljóta að gera sér grein fyrir því að harðar aðgerðir vegna kórónafaraldursins leiða til gjaldþrota og atvinnuleysis og skapa auk þess kvíða og ala á ótta hjá einstaklingum. Aðgerðirnar eru einnig til þess fallnar að skerða mannréttindi fólks. Vegna alls þessa mega aðgerðir ekki vera harðari en nauðsyn ber til. Þær þarf líka að rökstyðja vel hverju sinni, eins og sjálfsagt er að gera þegar verið er að hefta frelsi fólks.

Fólk er ekkert sérstaklega að velta fyrir sér mannréttindum sínum á kórónatímum. Hlýðum Víði var slagorð sem hljómaði ágætlega svona í byrjun kórónafaraldurs, en blind hlýðni er samt ekki af hinu góða. Þegar þrengt er að mannréttindum fólks, undir þeim formerkjum að það sé því sjálfu fyrir bestu, þá þurfa einstaklingar einmitt að halda vöku sinni. Blessunarlega virðist Víðir Reynisson sjálfur gera sér grein fyrir þessu og af málflutningi hans hefur mátt ráða að hann telji að ýmis höft sem hafi verið sett á eigi alls ekki að festast hér í sessi. Það er sannarlega ekki sjálfgefið að maður í hans stöðu tali þannig. Fyrir það skal honum þakkað. Of fáir tala á sama hátt.

Á dögunum mælti hin ætíð óhrædda Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gegn hertum aðgerðum til að hefta kórónaveiruna. Um leið skapaðist gósentíð hjá æstum netverjum, því nú gafst sannarlega tilefni til að fara hamförum, hneykslast og bölsótast. Þannig líður netsóðunum nefnilega langbest. Formælingum rigndi yfir Sigríði og henni var vitanlega ráðlagt að drepa sig.

Sigríður sagði hluti sem skipta miklu máli og mikilvægt er að hafa í heiðri á tímum eins og þessum. Flokkssystir hennar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, hefur talað á líkum nótum. Vonandi halda þær áfram að standa vaktina og vara við því að höft fari að teljast sjálfsögð. Aðrir stjórnmálamenn virðast ekki hafa sérlega mikinn áhuga á þessum sjónarmiðum, sem eru samt svo mikilvæg. Af einhverjum ástæðum á þetta sérstaklega við um stjórnmálamenn á vinstri vængnum.

Í pistli sínum varaði Sigríður sömuleiðis við hræðsluáróðri. Jafnvel harðhausar sem taka kórónafaraldrinum af mikilli ró og eru einbeittir í því að láta hann ekki trufla líf sitt, vita af einstaklingum sem þjást af kvíða og ótta og eru sumir nánast óstarfhæfir vegna þessa. Sóttvarnayfirvöld og ríkisstjórn hljóta einnig að vita af þessum hópi. Það skiptir verulegu máli hvernig hlutir eru sagðir. Vitanlega eiga yfirvöld að vera raunsæ, en verða um leið að gefa fólki von – enda ætti það ekki að vera sérlega erfitt.

Enn skal vikið að Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni sem í nýlegu viðtali á Bylgjunni sagði pistil Sigríðar Á. Andersen vera áhugaverðan. Hann sagði hjálplegt þegar bent væri á hluti á málefnalegan hátt og bætti við að hættulegt væri ef allir væru sammála þeim sem eru í krísustjórnun, eins og hann er.

Svo sannarlega gæti þjóðin verið óheppnari með yfirlögregluþjón.