Arðsemi bankanna hefur verið léleg um langt skeið. Ástæðurnar eru flestum vel kunnar. Erfitt rekstrarumhverfi, sem einkennist af stífum eiginfjárkröfum og háum sértækum sköttum, ásamt meiri samkeppni en áður með uppgangi nýrra leikenda í fjármálaþjónustu og stórauknum umsvifum lífeyrissjóða í útlánastarfsemi ræður þar mestu um. Eftir að hafa verið reknir sumpart á sjálfstýringu í of langan tíma, án aðkomu nokkurra virkra eigenda með hagsmuni undir hverju þurfi að breyta og hvað bæta, eru sumir bankanna farnir að grípa til róttækra aðgerða til að snúa við þessari stöðu. Ráðist hefur verið í stórfelldar uppsagnir á starfsfólki og vaxtaálög á útlán til fyrirtækja hækkuð umtalsvert.

Það mun hins vegar taka tíma að ná viðunandi arðsemi. Þannig var arðsemi eigin fjár Íslandsbanka allt að fjórum prósentustigum undir ávöxtunarkröfu Bankasýslunnar, sem heldur um 100 prósenta hlut ríkisins í bankanum, á síðasta ári. Ávöxtunarkrafa stofnunarinnar, sem hún setti Íslandsbanka í árslok 2018 og mælist í dag 7,75 prósent, skilgreinist sem áhættulausir vextir að viðbættu fimm prósenta álagi og hefur farið lækkandi samhliða vaxtalækkunum Seðlabankans.

Er það of há krafa? Sumir hafa fært fyrir því rök og sagt vel ásættanlegt fyrir ríkið að fá lægri ávöxtun á eigið fé, meðal annars á grundvelli þess að bankarnir séu með sterk eiginfjárhlutföll og ekki í mjög áhættusömum rekstri, auk þess sem háir skattar og þungt regluverk geri þeim erfitt að skila hærri arðsemi. Ekki skal gera lítið úr þeirri staðreynd að stjórnvöld hafa lagt sitt af mörkum við að gera rekstrarumhverfið hvað erfiðast en sú mynd er hins vegar ekki að fara að taka stakkaskiptum í náinni framtíð. Bankarnir eiga því ekki annarra kosta völ en að aðlaga sig þessu umhverfi og leita leiða til að bæta afkomuna svo eigendurnir – skattgreiðendur – fái ásættanlegt endurgjald af því að vera með hundruð milljarða bundin í áhættusömum bankarekstri.

Getur Bankasýslan sett bönkunum ávöxtunarkröfu sem er ekki á markaðsgrundvelli – og þá um leið lægri en fjárfestar gera almennt til fjármálafyrirtækja?

Ávöxtunarkrafa Bankasýslunnar getur seint talist óhófleg. Sigurður Atli Jónsson, stjórnarformaður ÍV og fyrrverandi forstjóri Kviku, nefndi við Markaðinn að samkvæmt niðurstöðum Evrópska bankaeftirlitsins, sem Bankasýslan horfir til, sé ávöxtunarkrafa á eigið fé evrópskra banka nú að meðaltali 8 til 12 prósent. Þá er ekki hægt að réttlæta lægri kröfu með þeim rökum að bankarnir séu með há eiginfjárhlutföll, sem eigi að vera til marks um minni áhættu, heldur endurspeglar sú offjármögnun fremur óskilvirkni. Getur Bankasýslan sett bönkunum ávöxtunarkröfu sem er ekki á markaðsgrundvelli – og þá um leið lægri en fjárfestar gera almennt til fjármálafyrirtækja? Tæplega. Það væri ígildi ólögmætrar ríkisaðstoðar og myndi þýða að ríkið þyrfti að endurmeta til lækkunar virði eignarhluta sinna í bönkunum, sem eru nú metnir á um 80 prósent af bókfærðu eigin fé þeirra, í samræmi við kröfu um lægri ávöxtun.

Það sagði enginn að þetta yrði auðvelt. Í stað þess að kvarta undan ávöxtunarkröfu Bankasýslunnar, sem er eðlileg og studd góðum rökum, ættu stjórnir ríkisbankanna, Íslandsbanka og Landsbankans, að leggja sitt af mörkum við að bæta reksturinn og þrýsta á frekari ráðstafanir svo arðsemin verði ásættanleg í aðdraganda fyrirsjáanlegs söluferlis og þannig auka virði bankanna. Það mun ekki gerast ef við sættum okkur við arðsemi sem stendur ekki undir sjálfbærum rekstri til lengdar.