Loftslagsváin sem steðjar að mannkyni er fyrst og síðast áminning um að óheft auðhyggja er ekki einasta mannskemmandi heldur vinnur hún líka stórfelld níðingsverk á náttúrunni – og mjög líklega óafturkræfan óskunda á móður jörð.

Stórkapítalisminn hefur farið sínu fram frá fyrstu iðnbyltingunni og þar sem hann hefur verið frekastur til fjörsins hefur hann engu eirt, hvorki skógum né námum, hvað þá lífi heimshafanna sem lengst af hafa verið álitin stærsta ruslakista jarðar, en þess utan hafa villtu landdýrin verið rænd sínum löndum í flestum álfum heimskringlunnar.

Áskorun þjóðarleiðtoganna í Skotlandi er að hemja þessa gróðahyggju og draga úr eyðileggingarmætti auðjarlanna sem halda um flesta ef ekki alla þræði valdsins í lýðræðisríkjunum ekki síður en einræðisríkjunum – og hvort heldur er í þróuðum iðnríkjum eða vanþróuðum.

Vandi þessara foringja, sem fara nú mikinn í upphöfnu orðskrúði í ræðupúltinu í Glasgow, er einkum sá að þeir hafa ekki völdin til að vinda ofan af óreiðunni í loftslagsmálum – og þótt þeir kunni í raun og sann að vera fullir velvilja í garð umhverfisins eru þeir í engum færum til að taka á meininu sem er falið í eðli heimsviðskiptanna þar sem hámarksgróðinn hefur alltaf betur en borðfáninn á ráðstefnum ráðherranna.

Tími yfirlýsinganna er sagður vera liðinn. En það hefur hann verið árum saman, jafnvel áratugum saman. Tími endimarkanna er kominn. Og það hefur hann svo augljóslega verið lengi vel.

Samt kraumar kapítalisminn sem aldrei fyrr. Og annað er ekki í boði í tekjuáætlun næsta árs. Allra arðbærustu stórfyrirtækin á sviði jarðefnaframleiðslu, málmvinnslu, í tækniiðnaði og matvælagerð, svo og í geira flutningsþjónustu á lofti, legi og landi, hafa engan áhuga á að láta arðsemiskröfuna lönd og leið – og eigendur þeirra munu áfram keppast við að safna ofsaauði í hagnaðardrifnu hagkerfi sínu.

Stórkapítalismanum verður ekki stjórnað svo glatt. Og þar er vandinn. Og það í sinni stórkostlegustu mynd.

Vandinn er hins vegar ekki falinn í myndinni af litla smákapítalistanum á Indlandi sem safnar kolamolum í malinn sinn og reiðir hann á markaðinn svo hann geti brauðfætt fjölskylduna sína. Og vandinn er ekki í orðum móðurinnar í Kína sem getur ekki eldað kvöldmatinn fyrir börnin sín ef ekkert er að brenna.

Vandinn er jafn stór og hann er einfaldur: að stórkapítalisminn kunni sér hóf.

Tími yfirlýsinganna er sagður vera liðinn. En það hefur hann verið árum saman, jafnvel áratugum saman.