Ég heim­sótti ný­verið Kensington höll í Lundúna­borg en höllin hefur verið bú­staður bresks konungs­fólks frá því á 17. öld. Þar sem ég gekk um gull­slegna sali rak ég augun í spegil. Hvað höfðu í­búar í­burðar­mikillar hallarinnar hugsað í aldanna rás er þeir litu í spegilinn, fólk sem sagt var fá for­réttindi sín frá guði. Hugsaði það: „Þetta er ruglað?“ Eða hugsaði það: „Djöfull er ég mikill meistari?“

Að sögn breska sál­fræðingsins Adam Phillips hrærumst við ein­hvers staðar milli lífsins sem við lifum og lífsins sem við viljum. Hann segir til­vist okkar skiptast í tvennt; í hið eigin­lega líf og „hið ó­lifaða líf“, líf sem við lifum aldrei en teljum að hefði getað orðið. Við eyðum ævinni þannig með mann­eskjunni sem við urðum aldrei og spurningunni: Hvað ef?

Hinn 4. janúar árið 1960 ók franski rit­höfundurinn Albert Camus til Parísar á­samt út­gefanda sínum Michel Galli­mard. Galli­mard hafði fest kaup á nýjum bíl. Kollegarnir komust þó aldrei á leiðar­enda. Skammt fyrir utan París missti Galli­mard stjórn á bif­reiðinni sem hafnaði á tré. Camus lést við á­reksturinn. Galli­mard lést fimm dögum síðar. Í vasa Camus, sem hafði fengið Nóbels­verð­launin í bók­menntum tveimur árum fyrr að­eins 44 ára að aldri, fannst ó­notaður lestar­miði til Parísar.

Oft virðist sem til­viljanir séu eitt helsta hreyfi­afl til­verunnar. Ný rann­sókn sýnir að sú er ein­mitt raunin oftar en við höldum.

Hvað veldur vel­gengni? Svarið er breyti­legt eftir því hver er spurður. Donald Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seti og milljarða­mæringur, þakkar vel­gengni sína „mjög traustri snilli­gáfu“. Annar milljarða­mæringur, War­ren Buf­fett, segir vel­gengni sína stafa af því að hann hafi unnið í „eggja­stokka­lottóinu“.

Niður­stöður nýrrar sænskrar rann­sóknar benda til að kenning Buf­fett sé nær lagi. Í rúman ára­tug var fylgst með þróun tekna 60.000 karl­manna sem höfðu tekið greindar­próf við upp­haf her­þjónustu. Í ljós kom að gáfur fleyttu þeim ekki nema hluta leiðarinnar að vel­gengni. Þegar á­kveðnum árs­launum var náð, í kringum átta milljónum ís­lenskra króna, hvarf fylgni milli gáfna­fars og launa. Gáfur virtust jafn­vel fara hnignandi við á­fangann. Að sögn vísinda­mannanna var á­stæðan ein­föld. Þótt gáfur skipti máli skiptir bak­grunnur fólks meira máli. „Vel­gengni á vinnu­markaði stýrist mun fremur af efna­hags­legu bak­landi og heppni en getu.“

Það eina sem skilur þau að

Í vikunni kusu aðildar­fé­lög Sam­taka at­vinnu­lífsins með því að verk­bann yrði sett á starfs­fólk sem skráð er í stéttar­fé­lagið Eflingu. Í stjórn SA, sem sam­þykkti boðun verk­bannsins, sitja for­stjórar ýmissa stór­fyrir­tækja, banka­stjórar og full­trúar út­gerðarinnar. Þeirra á meðal er for­stjóri Arion banka en í síðustu viku mátti lesa í fréttum að laun hans hefðu hækkað um 25% milli ára í 7,3 milljónir á mánuði.

Hvað ef? Hvað ef Camus hefði notað lestar­miðann? Til­viljanir eru guð. Þær skilja milli lífs og dauða. Þær ráða því hver gengur um gull­slegnar hallir, hver stýrir banka, hver skúrar bankann.

Þegar stjórnar­fólk SA lítur í spegilinn áður en það heldur til vel launaðrar inni­vinnu sinnar, hvað hugsar það? Hugsar það „snilli­gáfa“ eða „eggja­stokka­lottó“? Hugsar það: „Þetta er ruglað?“ Eða hugsar það: „Djöfull er ég mikill meistari?“

Við hrærumst milli lífsins sem við lifum og lífsins sem við viljum. Tignar­fólk sam­fé­lagsins virðist telja sig þess um­komið að á­kveða hvar sú lífs­bar­átta sé háð í til­felli hinna verst settu. Þeim væri þó hollt að hafa eftir­farandi í huga: Hið eigin­lega líf banka­stjóra Arion banka er „hið ó­lifaða líf“ hótel­þernu. Það eina sem skilur þau að eru til­viljanir.