Ég heimsótti nýverið Kensington höll í Lundúnaborg en höllin hefur verið bústaður bresks konungsfólks frá því á 17. öld. Þar sem ég gekk um gullslegna sali rak ég augun í spegil. Hvað höfðu íbúar íburðarmikillar hallarinnar hugsað í aldanna rás er þeir litu í spegilinn, fólk sem sagt var fá forréttindi sín frá guði. Hugsaði það: „Þetta er ruglað?“ Eða hugsaði það: „Djöfull er ég mikill meistari?“
Að sögn breska sálfræðingsins Adam Phillips hrærumst við einhvers staðar milli lífsins sem við lifum og lífsins sem við viljum. Hann segir tilvist okkar skiptast í tvennt; í hið eiginlega líf og „hið ólifaða líf“, líf sem við lifum aldrei en teljum að hefði getað orðið. Við eyðum ævinni þannig með manneskjunni sem við urðum aldrei og spurningunni: Hvað ef?
Hinn 4. janúar árið 1960 ók franski rithöfundurinn Albert Camus til Parísar ásamt útgefanda sínum Michel Gallimard. Gallimard hafði fest kaup á nýjum bíl. Kollegarnir komust þó aldrei á leiðarenda. Skammt fyrir utan París missti Gallimard stjórn á bifreiðinni sem hafnaði á tré. Camus lést við áreksturinn. Gallimard lést fimm dögum síðar. Í vasa Camus, sem hafði fengið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum tveimur árum fyrr aðeins 44 ára að aldri, fannst ónotaður lestarmiði til Parísar.
Oft virðist sem tilviljanir séu eitt helsta hreyfiafl tilverunnar. Ný rannsókn sýnir að sú er einmitt raunin oftar en við höldum.
Hvað veldur velgengni? Svarið er breytilegt eftir því hver er spurður. Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og milljarðamæringur, þakkar velgengni sína „mjög traustri snilligáfu“. Annar milljarðamæringur, Warren Buffett, segir velgengni sína stafa af því að hann hafi unnið í „eggjastokkalottóinu“.
Niðurstöður nýrrar sænskrar rannsóknar benda til að kenning Buffett sé nær lagi. Í rúman áratug var fylgst með þróun tekna 60.000 karlmanna sem höfðu tekið greindarpróf við upphaf herþjónustu. Í ljós kom að gáfur fleyttu þeim ekki nema hluta leiðarinnar að velgengni. Þegar ákveðnum árslaunum var náð, í kringum átta milljónum íslenskra króna, hvarf fylgni milli gáfnafars og launa. Gáfur virtust jafnvel fara hnignandi við áfangann. Að sögn vísindamannanna var ástæðan einföld. Þótt gáfur skipti máli skiptir bakgrunnur fólks meira máli. „Velgengni á vinnumarkaði stýrist mun fremur af efnahagslegu baklandi og heppni en getu.“
Það eina sem skilur þau að
Í vikunni kusu aðildarfélög Samtaka atvinnulífsins með því að verkbann yrði sett á starfsfólk sem skráð er í stéttarfélagið Eflingu. Í stjórn SA, sem samþykkti boðun verkbannsins, sitja forstjórar ýmissa stórfyrirtækja, bankastjórar og fulltrúar útgerðarinnar. Þeirra á meðal er forstjóri Arion banka en í síðustu viku mátti lesa í fréttum að laun hans hefðu hækkað um 25% milli ára í 7,3 milljónir á mánuði.
Hvað ef? Hvað ef Camus hefði notað lestarmiðann? Tilviljanir eru guð. Þær skilja milli lífs og dauða. Þær ráða því hver gengur um gullslegnar hallir, hver stýrir banka, hver skúrar bankann.
Þegar stjórnarfólk SA lítur í spegilinn áður en það heldur til vel launaðrar innivinnu sinnar, hvað hugsar það? Hugsar það „snilligáfa“ eða „eggjastokkalottó“? Hugsar það: „Þetta er ruglað?“ Eða hugsar það: „Djöfull er ég mikill meistari?“
Við hrærumst milli lífsins sem við lifum og lífsins sem við viljum. Tignarfólk samfélagsins virðist telja sig þess umkomið að ákveða hvar sú lífsbarátta sé háð í tilfelli hinna verst settu. Þeim væri þó hollt að hafa eftirfarandi í huga: Hið eiginlega líf bankastjóra Arion banka er „hið ólifaða líf“ hótelþernu. Það eina sem skilur þau að eru tilviljanir.