Dagur mannréttinda barna er í dag 20. nóvember. Réttindi barna ættu að vera okkur ofarlega í huga alla daga en í dag er tilvalið að vekja sérstaka athygli á þeim, skoða hvað hefur áunnist og hvaða áskoranir við stöndum frammi fyrir.

30 ár eru liðin í dag frá því Barnasáttmálinn var lagður fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Með Barnasáttmálanum var kveðið sterkt um réttindi barna og markaði hann mikil tímamót þegar kemur að réttindum þeirra og þátttöku í ákvarðanatöku. Börn og ungmenni hafa nú sífellt fleiri tækifæri til að koma sínum skoðunum á framfæri og víða eru starfandi ungmennaráð sem skapa vettvang til að hafa áhrif. Í ungmennaráðum eru oft á tíðum félagslega sterkir einstaklingar sem leggja sig fram um að tala máli annarra barna og ungmenna og er það ómetanlegt innlegg í stefnumótun til framtíðar. Eftir situr þó spurning um hvernig við getum náð til þeirra barna og ungmenna sem ekki eru eins félagslega sterk, hvernig getum við tryggt að hlustað sé á raddir þeirra?

Barnaheill – Save the Children á Íslandi í samstarfi við dómsmála- og mennta- og menningarmálaráðuneytið sjá um framkvæmd Dags mannréttinda barna sem er helgaður fræðslu um mannréttindi barna. Barnaheill, sem í ár fagna 30 ára afmæli hér á landi og 100 ára afmæli alþjóðasamtakanna Save the Children, hafa á undanförnum árum hvatt skólastjórnendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum til að leggja sérstaka áherslu á fræðslu um réttindi barna á þessum degi með ýmsum hætti. Öllum nemendum gefst nú tækifæri til að láta rödd sína heyrast því skólastjórnendur fengu hvatningu og leiðbeiningar um að hafa nemendaþing í skólunum. Framtíðin er óskrifað blað en mikilvægt er að hún verði mótuð af mismunandi röddum, ekki síst röddum þeirra sem erfa munu landið.

Höfundur er verkefnastjóri hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi