Enn eitt ár er á enda runnið og nýtt hafið. Öll berum við þá von í brjósti að það sem gerði okkur lífið leitt á síðasta ári sé að baki og bjartari tímar taki við.
Á nýársdag flutti ég prédikun í Dómkirkjunni í Reykjavík og var guðsþjónustunni útvarpað samkvæmt venju á Rás 1 í ríkisútvarpinu. Þar gerði ég að umtalsefni það sem burt má fara á nýju ári og það sem koma má til að líf okkar verði blessunarríkt og gott. Ég lagði út af ljóði A. L. Tennyson sem ávarpar nýársklukkurnar í kvæði sínu In Memoriam og sagði meðal annars:
„Nýársklukkan íslenska má í ár hringja út þann harm sem margar fjölskyldur reyna vegna misnotkunar á áfengi og neyslu fíkniefna.
Nýársklukkan má hringja út það kynferðisofbeldi sem margir hafa orðið fyrir, konur, karlar, transfólk, ofbeldi sem meiðir og deyðir, ofbeldi sem hefur svo sannarlegar verið sett í orð og umræðu á nýliðnu ári. Það mun skila árangri þegar fram líða stundir en sársaukafull er sú vegferð sem hafin er eins og ávallt þegar sár er hreinsað svo það geti gróið um heilt.
Nýársklukkan má einnig hringja út heimsfaraldurinn sem enginn mun sakna og afleiðingar loftslagsbreytinganna sem valda meðal annars breyttu veðurfari. Klukkan sú má einnig hringja út allt það sem ógnar og rænir fólk lífshamingjunni. Það er af nógu að taka.“
Vonir og væntingar til hins nýja árs voru sagðar með þessum orðum: „Við biðjum þess að á hinu nýbyrjaða ári hringi nýársklukkan inn ráð og leiðir til að sætta fólk og koma á friði á jörðu. Hringi inn meiri trú og minni efa. Hringi inn farsæld og gjöfult lífi. Hringi inn visku og seiglu til að takast á við verkefni lífsins.“
Með þá sýn og bæn í huga bið ég Guð að blessa okkur nýtt ár.