Ef ég hefði ekkert fylgst með fréttum myndi ég hikstalaust telja að Ómíkron væri dauðarokks­hljómsveit. Ég sé hana fyrir mér. Síðhærðir gaurar. Leðurklætt lið. Hefur aldrei almennilega slegið í gegn en á sér samt dyggan áhangendahóp. Er frá Akureyri. Sigraði í Músiktilraunum 2005. Sendi lag í Júróvisjón 2016 en hafði ekki erindi sem erfiði. Strákarnir í Ómíkron eru ekki af baki dottnir. Þeir ná alltaf að fylla Eldborg.

En nei. Ómíkron er því miður ekki dauðarokkshljómsveit, og heldur ekki skólína frá Kronkron, ryksuguróbot, fæðubótarefni eða nýr kínverskur rafmagnsbíll. Ómíkron er, eins og heimsbyggð veit, nýtt afbrigði kórónuveirunnar. Margar ákvarðanir munu þykja furðulegar í framtíðinni varðandi þennan heimsfaraldur. Ein þeirra er þegar farin að vekja undrun. Hví heita afbrigðin þessum nöfnum? Er nóg af áheyrilegum stöfum í forngríska stafrófinu? Við þekkjum grísku stafina alfa, beta, gamma, kappa, en ómíkron er minna þekktur. Mest hlakka ég til þegar afbrigðin zeta, eta og theta munu dynja á okkur í röð, rétt áður en phi, chi og psi gera okkur lífið leitt. Þá verða mu, nu, xi, pi, rho og tau væntanlega búin að ljúka sér af. Ef heimsbyggðin verður ekki orðin rjúkandi rúst þegar að því kemur og mannkynið þunglynt, tuldrandi hrak. Allir með sigma.

Nú eru tvö ár frá því veiran lét sjá sig fyrst, sem var einhvern tímann um þetta leyti árið 2019. Veröldin fyrir þann tíma er í óraunverulegri fjarlægð. Önnur vídd. Annað líf. Önnur umræðuefni. Öðruvísi áhyggjur. Grímur óhugsandi. Þórólfur óþekktur. Ekki langar mann sérstaklega til þess að halda upp á afmæli veirunnar á neinn hátt, en þó má hugleiða ýmislegt á þessum tímamótum.

Í framtíðinni verður ábyggilega rannsakað í graut hvernig heimsbyggðin og einstök lönd kusu að haga sínum málum þegar þessi vá steðjaði að. Ísland, held ég, mun fá ágætiseinkunn en verður dregið niður fyrir það að hafa ekki hugað að þessum málum fyrir fram, þrátt fyrir viðvaranir. Við hefðum staðið sterkar að vígi með sterkari Landspítala, fleiri hjúkrunarfræðinga og gjörgæslurými. Ekki var farið að ráðleggingum hvað þetta varðaði. Það er okkar Akkilesarhæll nú.

Heimsbyggðin öll mun líklega fá lélega einkunn. Ein athyglisverðasta frétt liðinnar viku var sú, að WHO hefði hugsað sér að hefja vinnu aðildarríkjanna að því að skilgreina hvernig bregðast skuli við, sameiginlega, næsta heimsfaraldri. Slíka sameiginlega nálgun hefur algjörlega skort. Vírusinn hefur dregið fram á örskömmum tíma þá djúpu bresti sem einkenna skipan heimsmála. Ójöfnuður er djúpstæður vandi. Ríki hugsa ekki um heildina. Hver er næstur sjálfum sér.

Þetta þarf að laga. Vírusinn hefur boðið hverju einasta þjóðríki og þegnum þeirra að spegla sig, íhuga stöðu sína í samfélagi þjóða og skoða einkenni síns ríkis og bera saman við önnur. Sum koma undarlega út. Önnur betur.

Ég þakka til dæmis fyrir það á hverjum degi að yfirvöld hér á landi eru ekki eins og yfirvöld í Bretlandi. Við erum með gott fólk í brúnni og heilt yfir eru ákvarðanir hér skynsamlegar. Bretland er hins vegar sífelld uppspretta furðu. Þar er núna farið fram á að allir ferðalangar, út af panik vegna ómíkron, fari í PCR-próf eftir að þeir koma til landsins. Próf sem eru tekin fyrir ferðina eru ekki gild og það sem meira er, einungis má taka próf hjá breskum einkaaðilum. Þau kosta formúur.

Eitthvað myndi heyrast hér ef ríkisstjórnin ákveddi að skilyrða komu ferðamanna við PCR-próf hjá einkaaðilum, sem hefðu frjálsar hendur í verðlagningu. Prófið kostar í Bretlandi upp undir 30 þúsund krónur. Heyrast myndi líka hljóð úr horni ef íslensk yfirvöld ákveddu að gera eins og þau japönsku og skella landinu í lás út af ómíkron. Ég þykist líka vita að upplitið væri ekki djarft á mörgum hér ef Ísland hefði gert eins og Nýja-Sjáland og væri ekki enn búið að opna landamærin eftir tvö ár í lás.

Ákvarðanir skipta máli og áhrif þeirra á fólk geta verið gríðarleg. Stjórnmál eru víða einkennileg, einsog veiran hefur afhjúpað. Mesta vonin á þessum tímapunkti felst í því að veiran sjálf fari að láta gott heita. Ég minnist þess að í upphafi faraldursins höfðu fræðimenn á orði að ekki væri ólíklegt að faraldurinn myndi smám saman fjara út, að veiran yrði minna skæð og á endanum ylli kórónuveiran fremur saklausum kvefeinkennum. Þrátt fyrir allt vill veiran ekki að hýsill sinn deyi.

Heitt og innilega vona ég að nú sé hugsanlega komið að þessum straumhvörfum í faraldrinum. Kannski verður þetta síðasta hljómsveitin á svið: Dauðarokks­hljómsveitin Ómíkron, gjöriði svo vel.

Alls ekki jafnrokkaðir og þeir voru fyrst. Spila eiginlega bara ballöður.