Þegar hugtakið vörumerki er nefnt hugsa flestir um tiltekin orð, slagorð eða það sem á slæmri íslensku má kalla lógó. Vörumerki geta þó verið svo miklu meira en orð eða myndir og á undanförnum árum hafa svokölluð óhefðbundin vörumerki sífellt orðið vinsælli víða um heim. Með óhefðbundnum vörumerkjum er átt við þau merki sem samanstanda ekki einungis af orðum eða myndum, en sem dæmi um slík merki má nefna hljóðmerki, hreyfimerki, litamerki, þrívíddarmerki, mynstur og margmiðlunarmerki.

Þann 1. september 2020 tóku gildi töluverðar breytingar á íslenskum vörumerkjalögum. Ein helsta breytingin var sú að opnað var fyrir skráningu á óhefðbundnum vörumerkjum í íslenska vörumerkjaskrá. Fyrir breytingar á lögunum var ekki útilokað að skrá slík vörumerki hér á landi, en eftir breytinguna er með skýrum hætti horfið frá þeirri kröfu að vörumerki þurfi að vera sýnileg tákn. Áfram eru þó gerðar þær kröfur að merkin þurfi að vera sett fram með skýrum og aðgengilegum hætti, þannig að almenningur og skráningaryfirvöld geti áttað sig á því hvert inntak merkisins er. Óhefðbundin merki þurfa enn fremur að uppfylla sömu skilyrði og önnur vörumerki til þess að þau teljist skráningarhæf, þau þurfa að hafa nægileg sérkenni og vera til þess fallin að greina vörur og þjónustu eins aðila frá vörum og þjónustu annarra.

Ein tegund óhefðbundinna vöru­merkja eru hljóðmerki, en slík merki samanstanda eingöngu af hljóði eða samsetningu hljóða. Skráningar hljóðmerkja hafa lengi tíðkast erlendis, meðal annars í Evrópu og í Bandaríkjunum. Sem dæmi um skráð hljóðmerki má nefna ljóns­öskur MGM-kvikmyndafyrirtækisins, „Doh!“ hljóð Hómers Simpson, hamarshljóðin tvö í upphafi hvers Law & Order þáttar, Mockingjay-flautið í Hunger Games myndunum og skeiðklukkan í 60 minutes þáttunum. Athygli vakti enn fremur þegar tónlistarmaðurinn Pitbull fékk svokallað „Eeeeyoooo“ öskur sitt skráð sem vörumerki árið 2020 í Bandaríkjunum, en aðdáendur tónlistarmannsins þekkja lög kappans á því að umrætt öskur kemur fram í þeim öllum. Hljóðmerki geta því verið af ýmsum toga.

Athygli vakti enn fremur þegar tónlistarmaðurinn Pitbull fékk svokallað „Eeeeyoooo“ öskur sitt skráð sem vörumerki árið 2020 í Bandaríkjunum .

Hljóðmerki eru þó enn í miklum minnihluta skráðra vörumerkja, meðal annars þar sem hingað til hefur reynst nokkrum vandkvæðum bundið að fá hljóðmerki skráð sem vörumerki. Þetta er vegna þess að það getur verið erfiðara að sýna fram á að hljóðið sé þeim eiginleikum gætt að geta virkað sem vörumerki, það er, að hljóðið sé sérkennandi og til þess fallið að greina vörur og þjónustu eiganda þess frá vörum og þjónustu annarra.

Á haustmánuðum 2020 voru fyrstu hljóðmerkin skráð hérlendis. Þegar þetta er skrifað í byrjun febrúar 2021 hafa þrjú hljóðmerki verið samþykkt af Hugverkastofunni, en í öllum tilvikum er um að ræða vörumerki í eigu erlendra aðila. Umrædd vörumerki eru í eigu bandaríska fjárfestingabankans Citigroup og svissneska raftækjaframleiðandans Vorverk. Þriðja hljóðmerkið er hins vegar líklega það þekktasta og er í eigu finnska símaframleiðandans Nokia. Merkið sem um ræðir er hið svokallaða „Nokia-tune“ og er ógleymanlegt og fast í minni allra sem kannast við að hafa átt Nokia-farsíma seint á síðustu öld.

Vörumerki í eigu Nokia Corporation.

Enn sem komið er hefur ekkert hljóðmerki í eigu íslenskra aðila verið skráð. Það er ljóst að möguleiki á skráningu óhefðbundinna vörumerkja opnar ýmsa möguleika fyrir hérlenda aðila í þróun og skráningu vörumerkja, hvort sem um ræðir fyrirtæki eða listamenn. Það verður áhugavert að fylgjast með þróun í þessum efnum og spennandi verður að sjá hvert verður fyrsta skráða hljóðmerkið í eigu íslenskra aðila, vonandi áður en langt um líður.

Höfundur er lögmaður á LEX og fram kvæmdastjóri GH Sigurgeirs son IP.