Ég hitti konu um daginn sem hafði sigrast á krabbameini. Hún lýsti fyrir mér hvernig hún hefði tekið líf sitt og venjur í gegn eftir að hún greindist. Hvernig hún vildi búa til hraustari líkama – líkama sem væri ekki vænleg bráð fyrir sjúkdóma.

Hún las allt sem hún komst yfir um styrkingu ónæmiskerfisins og hvernig styrkja má líkama og sál. Vissulega þurfti hún að taka mataræðið í gegn, sofa vel, forðast unna matvöru og hreyfa sig reglulega. En það sem kom mest á óvart var hláturinn sagði hún og hló svo innilega að allt fallega andlitið á henni ljómaði.

Hvað áttu við? spurði ég.

Hún útskýrði hvernig líkaminn framleiðir varnarfrumur sem ráðast gegn sýklum sem herja á líkamann, útrýma þeim og gera við líkamann. En góðu varnarfrumurnar geta ekki fjölgað sér og dafnað í slæmu umhverfi svo sem streitu og óheilbrigðu líferni. Okkar góða kona sagðist hafa farið á fyrirlestur þar sem farið var yfir líffræðilegt mikilvægi þess að hlæja. Ná þeirri slökun og endorfínframleiðslu sem fylgir góðum hlátri auk þess sem hlátur getur styrkt ónæmiskerfið með framleiðslu varnarfrumna. Þar að auki er ekki hægt að vera stressaður og óhamingjusamur um leið og þú hlærð innilega – svo niðurbrotið sem fylgir streitu er útilokað þegar hláturinn fær að taka við.

Konan sagðist hafa þurft að byrja að hlæja meira og það á erfiðum tíma í sínu lífi. Skilnaður, fjárhagsáhyggjur og veikindi. Ekkert fyndið þar. En hún var ákveðin í að hlæja. Fyrst byrjaði hún að horfa á uppáhaldsgrínþættina sína frá upphafi og svo leitaði hún að hlátrinum markvisst og hefur gert síðan.

Hvenær hlóst þú síðast svo innilega að þig verkjaði í magann?