Það er gaman að skokka eða hjóla eftir ótal göngu- og hjólastígum í Reykjavík þessa dagana. Það er hásumar og allur gróður í miklum blóma. Að vísu ætlar þetta að verða mikið súldarsumar hér í borginni en það gerir leiðangurinn áhugaverðari og dularfyllri. Stígarnir mynda háræðakerfi borgarinnar. Þeir tengja saman hverfi, liggja milli gatna eða samsíða þeim og tengjast oft fallegum grænum almenningssvæðum sem lúra á milli húsaraðanna. Eitt slíkt svæði er rétt við Grensáskirkju og liggur við stíg milli Háaleitisbrautar og Hvassaleitis. Þar liggur nú stór blár fugl festur í þunga keðju. Þetta er skúlptúr eftir listamanninn Þór Sigurþórsson og heitir „Kúkú tímar“.
Kannski hefur einhver vegfarandi tekið eftir stóru útgönguskilti á grasflötinni við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar. Skiltinu er stungið skáhöllu ofan í jörðina og hvít mannfígúran virðist vera á leiðinni þangað líka. Höfundur verksins er Eva Ísleifsdóttir. Hvort tveggja, blái fuglinn og þetta skrýtna skilti, er hluti af metnaðarfullri útisýningu Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík. Sýningin heitir Fallvelti heimsins og er hluti sýningarraðar sem kallast Hjólið. Verk innlendra og erlendra listamanna munu þræða sig eftir göngu- og hjólastígum borgarinnar í hinum ýmsu hverfum næstu sumur. Í góðri samvinnu við borgina auðvitað. Fyrsti áfangi er Bústaða- og Háaleitishverfi. Ég mæli eindregið með því að stíga á hjól eða bregða undir sig betri fætinum og halda í leiðangur í súldinni um þetta margslungna borgarhverfi. Hægt er að nálgast upplýsingar um listamennina og staðsetningu verkanna á hjolid.is. Sýningarstjórinn H. K. Rannversson hefur svo bætt um betur með því að gera Góða hirðinn við Fellsmúla og aflagða Gróðrarstöð við Grænuhlíð að hluta sýningarinnar sem hann kallar Möguleiki lífs í rústum kapítalismans.
Fyrir 20 árum efndi Myndhöggvarafélagið til eftirminnilegrar útisýningar sem hét Strandlengjan. Það er tímanna tákn að nú skuli vera komið að stígakerfinu. Borgin fylgir metnaðarfullri stefnu í gerð göngu- og hjólastíga, eins og borgarbúar vita. Þeirri stefnu verður fylgt eftir af krafti næstu árin.
Athugasemdir