Skoðun

Hjólið og listin

Það er gaman að skokka eða hjóla eftir ótal göngu- og hjólastígum í Reykjavík þessa dagana. Það er hásumar og allur gróður í miklum blóma. Að vísu ætlar þetta að verða mikið súldarsumar hér í borginni en það gerir leiðangurinn áhugaverðari og dularfyllri. Stígarnir mynda háræðakerfi borgarinnar. Þeir tengja saman hverfi, liggja milli gatna eða samsíða þeim og tengjast oft fallegum grænum almenningssvæðum sem lúra á milli húsaraðanna. Eitt slíkt svæði er rétt við Grensáskirkju og liggur við stíg milli Háaleitisbrautar og Hvassaleitis. Þar liggur nú stór blár fugl festur í þunga keðju. Þetta er skúlptúr eftir listamanninn Þór Sigurþórsson og heitir „Kúkú tímar“.

Kannski hefur einhver vegfarandi tekið eftir stóru útgönguskilti á grasflötinni við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar. Skiltinu er stungið skáhöllu ofan í jörðina og hvít mannfígúran virðist vera á leiðinni þangað líka. Höfundur verksins er Eva Ísleifsdóttir. Hvort tveggja, blái fuglinn og þetta skrýtna skilti, er hluti af metnaðarfullri útisýningu Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík. Sýningin heitir Fallvelti heimsins og er hluti sýningarraðar sem kallast Hjólið. Verk innlendra og erlendra listamanna munu þræða sig eftir göngu- og hjólastígum borgarinnar í hinum ýmsu hverfum næstu sumur. Í góðri samvinnu við borgina auðvitað. Fyrsti áfangi er Bústaða- og Háaleitishverfi. Ég mæli eindregið með því að stíga á hjól eða bregða undir sig betri fætinum og halda í leiðangur í súldinni um þetta margslungna borgarhverfi. Hægt er að nálgast upplýsingar um listamennina og staðsetningu verkanna á hjolid.is. Sýningarstjórinn H. K. Rannversson hefur svo bætt um betur með því að gera Góða hirðinn við Fellsmúla og aflagða Gróðrarstöð við Grænuhlíð að hluta sýningarinnar sem hann kallar Möguleiki lífs í rústum kapítalismans.

Fyrir 20 árum efndi Myndhöggvarafélagið til eftirminnilegrar útisýningar sem hét Strandlengjan. Það er tímanna tákn að nú skuli vera komið að stígakerfinu. Borgin fylgir metnaðarfullri stefnu í gerð göngu- og hjólastíga, eins og borgarbúar vita. Þeirri stefnu verður fylgt eftir af krafti næstu árin.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Skoðun

Birting dóma þegar þolendur eru börn
Salvör Nordal

Skoðun

Samtal um snjallsíma
Valgerður Sigurðardóttir

Fastir pennar

Tækifæri
Kjartan Hreinn Njálsson

Auglýsing

Nýjast

Jón eða séra Jóna
Haukur Örn Birgisson

Alls kyns kyn
Guðmundur Steingrímsson

Dagskrárvald í umhverfismálum
Guðmundur Andri Thorsson

Ákall æskunnar
Kolbrún Bergþórsdóttir

Þorsteinn drómundur
Óttar Guðmundsson

Kæri Jón
Sif Sigmarsdóttir

Auglýsing