Í liðinni viku tóku gildi í Texasfylki ströngustu lög Bandaríkjanna gegn þungunarrofi sem gera það með öllu ólöglegt eftir sex vikna meðgöngu. Ekki nóg með að konum séu sett svo þröng skilyrði að um leið og þær átta sig á að þær eru þungaðar sé að öllum líkindum orðið of seint að binda enda á meðgönguna; þá er samborgurum þeirra sem þó finna sér leiðir til þungunarrofs umbunað fyrir að segja frá.

Sú útfærsla er sérstaklega hönnuð til að gera hæstarétti kleift að fara gegn Roe gegn Wade, dómafordæminu frá árinu 1973 sem verndað hefur rétt bandarískra kvenna til þungunarrofs. Almenningur er þannig hvattur til að senda inn nafnlausar ábendingar um hvern þann sem á einhvern hátt aðstoðar við þungunarrof; heilbrigðisstarfsmann, fjölskyldumeðlim konunnar eða jafnvel bílstjórann sem ekur henni á staðinn. Er háum greiðslum lofað fyrir slíkar ábendingar, eða tæplega 1,3 milljónum íslenskra króna.

Ætla má að með slíkri nágrannavörslu sé menningarstríð af nýrri stærðargráðu í uppsiglingu í landi sem sífellt klofnar meira innan frá. Eins er nú ekkert sem kemur í veg fyrir að önnur fylki fylgi fordæmi Texasyfirvalda og allt eins líklegt að önnur málefni fari sömu leið. Nýverið tóku gildi í fylkinu lög um að hver sem er megi ganga um vopnaður byssu og hvorki þurfi til þess leyfi né þjálfun. Eins hefur ríkisstjóri Texas beitt sér gegn bólusetningar- og eða grímuskyldu í fyrirtækjum og stofnunum fylkisins. Yfirvöld í Texas bera því augljóslega ómælda virðingu fyrir mannlegu lífi … fram að fæðingu.

Í lok september reifaði ég á þessum vettvangi áhyggjur mínar af vali þáverandi Bandaríkjaforseta á Amy Coney Barrett í röð hæstaréttardómara. Sjö barna móðirin sem trúir því að líf hefjist við getnað, eftirlæti íhaldsins og andstæðinga Roe gegn Wade, situr nú í hæstarétti Bandaríkjanna. Konan sem nú lagði blessun sína yfir eina mestu afturför í lagasetningu í landi hinna frjálsu sem samþykkt var með fimm atkvæðum gegn fjórum. Áhyggjur af ráðningu hennar reyndust því ekki úr lausu lofti gripnar.

Skýr afstaða þeirra fimm dómara sem kusu með lögunum er bæði augljós og ógnvekjandi.Þeim, sem ekki átta sig á mögulegum áhrifum slíkrar afturfarar á okkur öll, bendi ég á skáldsögu Margaret Atwood, The Handmaid’s Tale. Þróunin minnir óþægilega mikið á dystópískan söguþráðinn og því miður eru allar líkur á að þetta sé bara byrjunin.