Íslensk nesjamennska kann að þykja krúttleg í hugum útlendinga sem sækja eyjuna heim, en hefur reynst heimamönnum heldur bagaleg í aldanna rás, enda hefur hún löngum staðið framförum fyrir þrifum.

Útnárahátturinn hefur greypst í þjóðarsálina – og ekki einasta talið eyjaskeggjum trú um að þeir geti verið sjálfum sér nógir úti við ysta haf, heldur hefur hann alið með þeim ótta gagnvart útlendingum. Fyrir vikið hafa landsmenn talið það svo í gegnum tíðina, að aðkomumenn komi einvörðungu hingað til lands í annarlegum tilgangi, ýmist til að ræna fólki, ellegar eignum þess og auðlindum.

Hér er komin meginskýring þess að stór hluti Íslendinga hræðist þjóðasamvinnu á borð við Evrópusambandið. Þeir telja einsýnt að fámenna þjóðin í jaðri álfunnar tapi öllum sínum sérkennum, hagsmunum og fullveldi, hefji hún samstarf með öðrum þjóðum; lítil þjóð græði ekkert á því að bindast efnahag annarra og geri allt betur upp á eigin spýtur.

Og þar er komið þjóðarstolt fólks, sem mjög reglulega þarf að minna sig á, að það er bara allt í lagi að vera eyþjóð í á að giska harðbýlu landi þar sem túlkunaratriði er hvaða árstíð ríki hverju sinni.

Hér gildir einu þótt raunveruleikinn sé allt annar, enda margsannað að alþjóðasamningar eru fámennum þjóðum miklum mun dýrmætari en tvíhliða samningar við hverja þjóðina af annarri. Og svo er hitt, að fullyrðingar um að stóru þjóðirnar innan Evrópu ráði öllu og níði af þeim skóinn, eru í besta falli stórfelldar og flónskulegar rangfærslur. Hér taka staðreyndir enda fram úr tilfinningum og afundnum geðþótta.

Eða hvaðan skyldi nýkjörinn forseti Evrópuþingsins koma? Frá Möltu, fámennasta aðildarríki Evrópusambandsins, sem er litlu fjölmennara en Ísland. Og þar fer aukin heldur kona, Roberta Metsola, en nýverið fékk hún yfirburða kosningu þingsins í embættið.

Og hvaðan skyldu forverar Ursulu von der Leyen á forsetastóli framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hafa komið? Jú, Jean-Claude Juncker sem sat á þeim stóli á árunum 2014 til 2019, kemur frá Lúxemborg, næst fámennasta aðildarríki sambandsins – og á undan honum gegndi José Manuel Barroso starfanum á árabilinu frá 2004, en hann er frá Portúgal, sem einnig er í hópi fámennustu landa ESB.

En litla Ísland vill áfram vera hjáleiga utan Evrópu, af gömlum ótta við ofríki annarra, en þiggja lagasetningu þeirra án þess að geta haft áhrif á hana. Og það er kallað íslenskt fullveldi.