Eftir innrás Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta í Úkraínu var farið að líkja honum við Adolf Hitler sem kallaður hefur verið holdgerving hins illa í nútímastjórnmálum. Myndir og áletranir sáust víða þar sem búið var að teikna á Pútín Hitlersskeggið alræmda og nöfn þeirra nefnd í sömu andrá. Mörgum fannst þetta of langt gengið. Pútín væri svo sannarlega valdasjúkur og hættulegur heimsfriðinum en að bera hann saman við Hitler sem gerðist sekur um Helförina og einhverja mestu glæpi sem framdir hafa verið gegn mannkyninu, væri líklega skot yfir markið.

En ef stórveldadraumar og yfirgangur Hitlers í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar eru skoðaðir má finna sláandi líkindi milli hans og Pútíns Rússlandsforseta. Báðir evrópskir einræðisherrar, sem veigruðu sér ekki við að láta myrða og fangelsa andstæðinga sína og nota óprúttinn áróður til þess að afvegaleiða umræðuna.

Hitler var æfur eftir ósigur Þjóðverja í fyrri heimsstyrjöldinni, taldi þjóðina niðurlægða og vildi gera Þýskaland að stórveldi á ný. Sömu sögu er að segja um Pútín eftir að Sovétríkin töpuðu kalda stríðinu og liðuðust í sundur.

Árið 1938 hófst Hitler handa við að ráðast inn í nágrannalönd sín. Fyrst tók hann Austurríki, því næst Súdetahéröðin í Tékkóslóvakíu og síðan Tékkóslóvakíu alla – og komst upp með það án þess að styrjöld brytist út. Því næst tók hann Pólland árið 1939 en þá sögðu Bretar og Frakkar loksins stopp. Winston Churchill kom inn í bresku ríkisstjórnina, stefna hins sáttafulla Chamberlains gagnvart Hitler var látin lönd og leið.

Árið 2008 réðst Pútín inn í nágrannaríkið Georgíu og færði einhliða til landamæralínu milli Georgíu og Suður-Ossetíu og náði þar með yfirráðum yfir litlu en mikilvægu svæði undir olíuleiðslur sínar. Árið 2014 innlimaði Pútín Krímskaga sem var hluti af Úkraínu og í febrúar á þessu ári gerði herlið hans allsherjarinnrás í Úkraínu.

Og nú hafa þau heimssögulegu tíðindi orðið að bæði Svíþjóð og Finnland, sem hingað til hafa viljað halda sig utan við Nató til þess að ögra ekki Rússum, hafa gengið til liðs við Atlantshafsbandalagið af ótta við Pútín.

Mun Pútín láta staðar numið hér eða halda áfram að sölsa undir sig nágrannalöndin eins og Hitler? Sérfræðingar telja það ólíklegt, her hans hafi ekki burði til þess. Meiri hætta sé á að kjarnorkustríð breiðist út til dæmis fyrir misskilning eða slysni í svona eldfimu ástandi. Það er ekki mjög líklegt en það er ekki útilokað og það er skelfileg tilhugsun.