Það er margt sem má gagnrýna í okkar samfélagi en það er líka margt sem er ástæða til að hrósa. Eitt það besta við Ísland er að sökum einsleitni og smæðar erum við fljót að temja okkur ný viðhorf, láta af fordómum og tileinka okkur víðsýni. Eitt skýrasta dæmið um þetta er afstaðan til hinsegin fólks hér á landi.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar í réttindabaráttu samkynhneigðra á 40 árum. Frábærir þættir Hrafnhildar Gunnarsdóttur „Svona fólk“ sem sýndir voru á RÚV í vetur og verið er að endursýna þessa dagana, sýna þá ömurlegu fordóma og útskúfun sem mætti samkynhneigðu fólki hér á landi. Um leið sýna þeir hve mikið hefur áunnist í að breyta viðhorfum samfélagsins til þessa hóps.

Í vikunni hófust „Hinsegin dagar“ þar sem réttindabaráttu samkynhneigðra er fagnað og vakin er athygli á að baráttu þessa hóps er hvergi nærri lokið. Ofsóknir gegn hommum og lesbíum og pólitísk misbeiting gegn þeim á sér stað víða um heim enn þann dag í dag.

Ein fallegasta birtingarmynd áðurnefndra kosta íslensks samfélags er Gleðigangan sjálf. Ég kemst alltaf við og fæ rykkorn í augu, þegar ég horfi á allt þetta fólk streyma fram hjá mér í göngunni, stolt af sjálfu sér, fagnandi fjölbreytileika og sjálfri ástinni. Samtímis fyllist ég gleði og og ánægju með íslenskt samfélag sem tókst á undraskjótum tíma að temja sér ný viðhorf og viðurkenna samkynhneigð. Ekki verður efnt til stórrar Gleðigöngu í ár heldur er fólk hvatt til að skipuleggja sína eigin gleðigöngu. Með sýnileika og gleðina að vopni skulum við því ganga saman upp á fjall eða út á götu og fagna fjölbreytileikanum laugardaginn kemur klukkan 14.00.