Fyrir hver jól tel ég mig búna að mastera skipulagið til að draga úr stressi og njóta aðventunnar. Ég get samt lofað ykkur að korter í 12 á aðfangadag verð ég mætt í einhverja búð með listann yfir það sem gleymdist.

Ég er samt hrædd um að sjálfshjálparbókin mín um afslöppun á aðventu og hvernig ég fór að því að draga úr jólastressi, kæmist seint á metsölulista. Jú, þarna eru klassísku ráðin um að þrífa ekki meira en nauðsynlegt er og baka smákökur úr tilbúnu deigi, eða kaupa þær. Fækka jólagjöfunum. Anda djúpt og fara í jólaljósagöngu í hressandi slagviðri.

Ráðin sem hafa raunverulega skilað einhverju eru nefnilega ekkert svo skemmtileg eða ekki á allra færi. Ráð eins og „vertu í vinnu með mjög sveigjanlegum vinnutíma, svo þú getir verið að jólast í vinnunni“. Eða „vertu ekki á lágmarkslaunum til að draga úr fjárhagsáhyggjum“.

Svo hafa ráðin „ekki eiga börn í frístundum, þar sem þú þarft að mæta á jólasýningar“ og „ekki eiga börn á þeim aldri þar sem þau trúa á jólasveininn og þú þarft að setja í skóinn“ reynst mér vel hin síðari ár. Og þó svo að börnin séu fullorðin, þá sparar það líka tíma ef þau eru sem fæst. Þá hef ég líka séð að það er minna stress ef það þarf ekki að huga að jólagjöf handa maka.

Við getum verið Skröggur og slakað algjörlega á. En í raun og sann kýs ég samt frekar jólasýningarnar, tímann sem fór í að skrifa bréf frá jólasveininum og handföndruðu jólakortin. Því er ég mætt korter í 12 á aðfangadag í búð, því jólin koma með jóla­stressinu.