Ég er kona.

Ég hef upplifað kynferðislega áreitni af hálfu karla í mínum innsta hring.

Ég hef upplifað að aðili, sem ég var í nánu sambandi við, fór yfir mörk mín.

Ég hef upplifað bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi í nánu sambandi.

Ég er kona með rödd og vald sem sannast best á því að þú, líklega án þess að þekkja mig, ert nú að lesa vangaveltur mínar.

Af þessum ástæðum tel ég mig mega segja það sem ég ætla að segja. Og í raun tel ég mig knúna til þess. Vitandi að ólíklegt sé að á veraldarvefnum muni þessi pistill hrúga að sér „lækum“, og mögulega skrifi ég hér með undir vist mína meðal hinna útskúfuðu.

Undanfarnar vikur hefur önnur bylgja #metoo- byltingarinnar haft víðtæk áhrif á samfélagið. Fólk sem sakað hefur verið um ofbeldi, markaleysi og gerendameðvirkni hefur ekki verið tekið neinum vettlingatökum á samfélagsmiðlum og menn keppst við að biðjast forláts á hegðun sinni, orðum sínum eða stuðningi sínum við meinta gerendur.

Tilgangur umræðunnar er að vekja athygli á og uppræta kynbundið ofbeldi og öll erum við sammála um að þar sé engin vanþörf á. Konur sem eru orðnar langþreyttar á að ofbeldi viðgangist enn í svo ríkum mæli og hversu erfitt reynist að fá réttláta málsmeðferð í dómskerfinu láta í sér heyra. Of lítið hefur breyst frá síðustu bylgju.

En helgar tilgangurinn meðalið? Er rétt að leikmenn taki á samfélagsmiðlum ákvarðanir um réttmætar afleiðingar meintra gjörða? Viljum við að með ásökun einni sé aðilum refsað með útskúfun? Er þetta rétta leiðin?

Ég segi nei og finnst við verða að spyrja okkur eðlilegra spurninga er þetta varðar. Við verðum að eiga samtalið og það má ekki bara vera í eina átt. „Cancel culture“, sem þýða má sem útskúfunarmenningu, hefur komist í hámæli undanfarið. Hugtakið er notað um þá leið að ýta aðilum, sem þykja hafa talað eða hagað sér á umdeildan hátt, út úr félagslegum eða faglegum hópum. Útfærslan getur verið margvísleg, allt frá því að fylgja viðkomandi ekki á samfélagsmiðlum að því að kaupa ekki afurðir eða mæta ekki á viðburði. Þó að vissulega sé öllum frjálst að nýta val sitt til að koma skoðunum sínum á framfæri er slík útskúfun aðeins einn angi máls.

Aðili sem búið er að „kanselera“ eða útskúfa á þann hátt er enn hluti samfélags okkar og verður að líkindum áfram. Þess vegna þurfum við að eiga samtalið og spyrja okkur hvert markmiðið sé og hvert við ætlum héðan.

Og nei, ég er ekki haldin gerendameðvirkni. Ég er aftur á móti skíthrædd við útskúfun án samtals og þá staðreynd að við, sem hugsandi fólk, þorum ekki lengur að tjá okkur af ótta við eilífðarvist meðal hinna útskúfuðu. ■