Kol­brún Berg­þórs­dóttir kýs enn á ný að birta bull um ferða­þjónustu í leiðara Frétta­blaðsins í dag. Þó hefur allt sem hún segir þar um at­vinnu­greinina, sem hefur skilað stærstum hluta út­flutnings­tekna þjóðarinnar og þar með staðið með beinum hætti undir bættum lífs­kjörum og auknum kaup­mætti undan­farin ár, verið marg­oft og endan­lega hrakið - bæði með beinum svörum við fyrri pistlum Kol­brúnar og með skýrum og greinar­góðum stað­reyndum í fjöl­mörgum greinum, við­tölum og um­fjöllunum í fjöl­miðlum, Frétta­blaðinu þar á meðal.

Það er full­kom­lega ó­tækt að blaða­maður sem vill láta taka sig al­var­lega í um­fjöllun um þjóð­mál haldi fram ó­rök­studdum klisju­lufsum um ferða­þjónustu á borð við þær sem Kol­brún og Frétta­blaðið bjóða upp á með morgun­kaffinu í dag.

Í fyrsta lagi er það rangt að ferða­þjónusta hafi ekki skilað sínu til sam­fé­lagsins með sköttum undan­farin ár. Í fyrra voru beinar skatt­tekjur ríkis og sveitar­fé­laga af ferða­þjónustu 65 milljarðar króna. Sex­tíu og fimm­þúsund milljónir. Það er sama upp­hæð og öll fram­lög ríkisins til Land­spítalans í fyrra. Ferða­þjónusta greiðir sannar­lega sína skatta til sam­fé­lagsins, hafið engar á­hyggjur af því.

Hugsan­lega er Kol­brún að vísa til hug­mynda fyrri ríkis­stjórnar um hærra virðis­auka­skatts­þrep á ferða­þjónustu þegar hún fabúlerar um of lága skatta á greinina, en virðist þá ekki vita að í sam­keppnis­löndum Ís­lands er ferða­þjónusta nær alltaf í neðra þrepi virðis­auka­skatts eða núll­þrepi. Rökin gegn hækkun VSK á ferða­þjónustu eru því ekki ó­rök­stutt væl gróða­punga eins og Kol­brún heldur blá­kalt fram heldur skyn­sam­leg skipan mála til að bæta sam­keppnis­hæfni Ís­lands sem ferða­manna­lands. Og ef ferða­þjónusta á að halda á­fram að vera grund­völlur þeirra lífs­kjara­bóta sem Kol­brúnu er aug­ljós­lega annt um er sam­keppnis­hæfni greinarinnar al­gert lykil­at­riði.

Í öðru lagi er það rangt að ferða­þjónusta hafi farið fram með verð­hækkunum í græðgis­vímu. Kol­brún virðist gera þá regins­kyssu að dæma ferða­þjónustu alla eftir vöfflu­dæmunum sí­vin­sælu. Þau eru hins vegar ekki dæmi­gerð og verða aldrei, og aldrei eru teknar með í reikninginn stað­reyndir (sem þó hefur marg­í­trekað verið bent á) eins og að þegar ferða­þjónustu­tíma­bilið er 3-5 mánuðir á ári á lands­byggðinni þarf verð­lagið að vera hærra þá mánuði til að veita fjöl­skyldum þeirra sem reka fyrir­tækin lífs­viður­væri allt árið, og skapa mikil­væg heilsars­störf sem bæta stöðu byggðar­laganna.

Svo er ein­fald­lega dýrt að reka fyrir­tæki á Ís­landi í dag og hefur orðið dýrara og dýrara á síðustu 4-5 árum. Þar hafa launa­greiðslur og launa­tengd gjöld ekki síst tekið stökk­breytingu, en launa­vísi­tala hækkaði um 75% milli áranna 2010 og 2018. Á sama tíma hækkaði neyslu­vísi­tala og því öll að­föng um 25% og byggingar­vísi­tala um 37%. Á sama tíma lækkuðu tekjur fyrir­tækjanna um 23% vegna gengis­styrkingar krónunnar. Sem­sagt lækkaðar tekjur og stór­hækkaður kostnaður sem þýðir verri af­komu fyrir­tækjanna.

Ef Kol­brún Berg­þórs­dóttir hefur uppi í erminni ein­hver hingað til ó­þekkt galdra­brögð til að halda fyrir­tækjum á lífi í slíku ár­ferði, önnur en að draga saman segl, fækka starfs­fólki og velta kostnaðar­hækkunum út í verð, er vel­komið að kynna þau í næsta leiðara.

Þó leiðarar Frétta­blaðsins séu skoðana­pistlar hlýtur að vera hægt að gera kröfu um að slíkir pistlar blaða­manna séu annað og meira en ó­rök­studd bá­bilja, sér­stak­lega þegar stað­reyndir mála hafa legið fyrir sem opin bók mánuðum og árum saman í sama fjöl­miðli. Í það minnsta hlýtur að mega vonast til þess að hinir mögru pistlar um ferða­þjónustu þurfi ekki að verða sjö talsins áður en þeir fara að fitna af stað­reyndum.

Undirritaður er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.