Einhvern tímann las ég lögin um útlendinga, flóttafólk, hælisleitendur og það sem að þeim málefnum lýtur. Ég man ekki eftir því að þar væri að finna þá hugsun, að þegar flóttafjölskylda kæmi hingað til lands væri best að leyfa fjölskyldunni að aðlagast vel samfélaginu, börnum að fara í skóla, eignast vini og læra íslensku í dágóðan tíma, og svo þvinga þau burt með valdi að næturlagi aftur til landsins sem þau flúðu frá upphaflega, þar sem lífi þeirra er ógnað. Ég er pottþéttur á því að lögin eru ekki svona. Enda væru það þá heldur betur fáránleg og ómanneskjuleg lög. Beinlínis andstyggileg.

Samt er þetta gert svona. Aftur og aftur. Hingað kom Kehdr-fjölskyldan frá Egyptalandi, til að flýja ofsóknir. Börnin hafa gengið hér í skóla og eignast vini. Kerfið sem hér er við lýði, og einhver virðist hafa búið til einhvern tímann – en enginn veit hver – virkar þá sem sagt þannig að þegar svona fólk kemur hingað og verður hluti af samfélaginu, er það greinilega álitið gríðarlega mikilvægt einhvers staðar að koma því burt. Mikil orka er sett í það verkefni. Það er eins og einhvers konar kerfislægt ónæmiskerfi líti á flóttafólk eins og Kehdr-fjölskylduna sem veirur, svo notað sé líkingamál í anda okkar tíma, og fátt annað komist að en að koma þeim út úr þjóðarlíkamanum.

Maður spyr sig. Hvaða fólk ákvað þetta? Er einhver manneskja til sem getur útskýrt fyrir okkur hinum hvar þessi tiltekna stefna, þessar aðferðir, voru búnar til og hvaða pólitíski vilji býr að baki? Hver er hugsunin? Ég man ekki eftir þessari ræðu í sölum Alþingis. Um skaðsemi flóttafólks. Um hættuna sem okkur stafar af börnum í neyð. Um hina djúpu og aðkallandi nauðsyn þess að þvinga börn úr landi, jafnvel eftir að þau hafa gengið hér í skóla, lært íslensku og eignast vini. Hefur þessi ræða verið flutt? Ekki fyrir opnum tjöldum svo ég muni. Grunsemdir vakna. Er hér ráðandi í leynum einhvers konar öfgahægriflokkur sem hefur ákveðið með ólýðræðislegum bellibrögðum að hér skuli andúð á flóttafólki og ömurlegt skeytingarleysi um þjáningu annarra, ekki síst barna, vera leiðarstef í útlendingamálum? Hvaðan sprettur kappið, þessi þörf til að kaupa meira að segja sérstakan opinberan bíl með nýjustu græjum til að hafa uppi á hinum ólöglegu útlendingum? Svo er þessi skrjóður hafður á ferli hér um landið með fólki í einkennisbúningum, stoppandi saklausa vegfarendur á Miklubrautinni, beinandi þeim inn í bílinn til yfirheyrslna, eins og í einhverju lögregluríki sem enginn bað um, en virðist vera blautur draumur einhverrar klíku bak við tjöldin.

Ég fæ þetta ekki heim og saman. Ég veit ekki almennilega í hvers konar landi ég bý þegar kemur að þessum málum. Þessar aðferðir, þessi stefna, er eins og hönnuð af illskeyttustu þátttakendum kommentakerfanna. Myrkustu hugum þjóðarinnar. Látum flóttafólkið aðlagast. Hendum því svo út.

Bent er á að Íslendingar taki við fleira flóttafólki nú en áður. Ekki þurfti mikið til. Fólki á flótta hefur fjölgað mjög í heiminum. Í fyrra fékk 531 einstaklingur á flótta náð fyrir augum íslenskra yfirvalda. Yfir helmingi umsókna var hafnað. Gott og vel. Það kunna að vera einhverjar málefnalegar ástæður fyrir því að hafna umsóknum um alþjóðlega vernd. Fólki er kannski beint í aðra meira viðeigandi farvegi, eða það hefur fengið vernd annars staðar. Þegar ég hugsa hins vegar um Kehdr-fjölskylduna og önnur slík dæmi í þessu samhengi verð ég að játa að skilningur minn á hinu ofvirka brottvísunarkerfi fýkur endanlega út um gluggann. Fyrst við erum að taka á móti flóttafólki, hvers vegna þá ekki fólki eins og þeim? Er neyð þeirra dregin í efa? Er á engan hátt metið að þau hafi skotið hér rótum? Skiptir ekki máli að hér er um að ræða börn?

Það er eins og kerfinu líði illa yfir því að hafa þurft að taka á móti flóttafólki. Kerfið verður að fá að vera illt. Það er eins og í því vaxi þörf við hverja mannúð sýnda. Það þarf að fá að nota nýja græjubílinn. Handtaka. Sýna egypsku flóttafólki að hér gildi þrátt fyrir allt þvermóðskan og harkan sex. Allir vita að góðviljað kerfi myndi alltaf finna leið til að veita þessu fólki leyfi til að vera hér áfram. Reglur hafa hvort sem er verið brotnar. Það er ekki svona sem lögin eiga að virka. Það myndi enginn fetta fingur út í þá niðurstöðu að fjölskyldan byggi hér áfram. Ég held að allir yrðu glaðir.

Mér finnst gott hjá fjölskyldunni að fara í felur. Ömurlegt að hún hafi þurft þess.