Þó vextir á Íslandi fari nú lækkandi, og séu í sögulegu lágmarki, eru þeir ekki jafn lágir og erlendis. Bandaríska seðlabankanum tókst rétt svo að hífa vexti upp í 2,5% í byrjun árs áður en bankinn hóf vaxtalækkunarferli á ný í sumar. Í síðustu þremur kreppum lækkaði Seðlabanki Bandaríkjanna vexti um 5%, en í þetta skiptið er svigrúmið helmingi minna. Enda var hætt við frekari vaxtalækkanir eftir síðustu viku, af ótta við að spila út svigrúminu ef efnahagsástandið skyldi versna verulega á komandi ári. Þá hafa stýrivextir í Evrópu verið neikvæðir frá því í júní 2014. Evrópski seðlabankinn leitar á ný leiða til að lækka markaðsvexti enn frekar með markaðsaðgerðum í formi verðbréfakaupa, svokallaðri magnbundinni íhlutun (e. quantitative easing). Neikvæðu vextirnir hafa smitast út í kerfið, eins og ætlunin var. Evrópskir bankar rukka nú eigendur stórra innistæðna fyrir að leggja peningana inn á bankabók. Þýska ríkið fjármagnaði sig til 10 ára fyrr í haust á neikvæðum vöxtum, sem þýðir að fjárfestar fá minna til baka en þeir upphaflega lánuðu ríkinu.

Íslenskir lántakendur kunna að horfa öfundaraugum á þessa stöðu. En það er önnur hlið á peningnum. Þó tilhneigingin sé að skipta landsmönnum upp í tvo hópa, þá sem eiga fjármagn og þá sem fá fjármagn að láni, er það einföldun. Við leggjum öll fyrir að minnsta kosti 15,5% af tekjum okkar fyrir skatt í lífeyrissjóð til ávöxtunar. Stærsti hluti útborgaðs lífeyris kemur til vegna ávöxtunar sem er skattfrjáls. Vaxtavextir leika hér lykilhlutverk, en með því að taka ekki út vaxtatekjur fær fjárfestir ekki aðeins vexti greidda á fjármagnið sem lagt er inn í sjóðinn, heldur einnig á vaxtatekjurnar. Ef ávöxtunin er 8% verða 100 þúsund krónur að 260 þúsund á tuttugu árum ef vaxtatekjur eru teknar út, en að 466 þúsund krónum ef vaxtatekjur sitja óhreyfðar. Skyldusparnaður í lífeyrissjóð er því mikil fjárfesting og skiptir ávöxtunin þar lykilmáli.

En vaxtavextir falla um sjálfa sig ef vextir verða neikvæðir, bæði nafnvextir og raunvextir, því minna verðmæti situr eftir en lagt var inn. Lífeyrissjóðir í Evrópu, og Japan þar sem vextir hafa verið lágir í langan tíma, standa nú frammi fyrir tvíþættum vanda; hækkandi lífaldur krefst enn betri ávöxtunar til að standa straum af lífeyrisgreiðslum til lengri tíma en ella, á sama tíma og erfiðara reynist að finna ávöxtun. Í Japan hafa fjárfestingar utan hins hefðbundna skulda- og hlutabréfamarkaðar aukist hratt, eignir sem eru ekki auðseljanlegar en veita von um jákvæða ávöxtun. Að jafnaði er gerð krafa til lífeyrissjóða að fjárfesta í öruggum eignum sem bjóða upp á stöðugt greiðsluflæði, en vandi skapast þegar öruggu eignirnar á markaðnum bjóða litla sem enga, eða jafnvel neikvæða, ávöxtun. Þó lækkandi vextir hafi hækkað verð á eldri skuldabréfum, og margir fjárfestar notið góðs af því, þá bjóða nýjar útgáfur í núverandi vaxtaumhverfi upp á litla ávöxtun. Lífeyrissjóðir horfa til framtíðarávöxtunar til að mæta skuldbindingum langt fram í tímann, ekki aðeins stöðunnar í dag.

Á síðustu árum hefur aukin áhersla verið á að auka erlendan sparnað Íslendinga í gegnum fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Hátt í hundrað milljarðar króna af lífeyrissfé leita nú út úr landinu í betri eignadreifingu árlega. Sjóðirnir okkar mæta nýjum veruleika lágvaxtastefnunnar erlendis þar sem erfiðara gæti reynst að læsa inn örugga og góða ávöxtun næstu árin. Viðhorf okkar Íslendinga til vaxta hefur ef til vill ráðist af þeirri sögulegu staðreynd að við höfum verið skuldaraþjóð. Erlendar skuldir voru meiri en eignir, enda eina leiðin til að fjármagna þann viðvarandi viðskiptahalla sem var við lýði frá seinni heimsstyrjöld fram til 2009. Staðan er nú önnur því hrein erlend staða landsins, eða eignir umfram skuldir, hefur aldrei verið betri. Nú lánum við umheiminum, og ef fram heldur sem horfir, á lágum vöxtum. Snertipunktar finnast þannig við þetta einstaka lágvaxtaástand, án þess að íslenskir vextir séu til umræðu.

Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka.