Fyrir skömmu gaf Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, út skýrslu Tetrosar Ghebreyesus yfirmanns stofnunarinnar um hvert skuli stefnt á ýmsum sviðum sem varða heilbrigði mannkyns, þar með talið um heilbrigði í taugakerfinu. Fyrir utan hina hefðbundnu kafla í skýrslunni um forvarnir gegn slysum og sjúkdómum í taugakerfinu og umönnun á slíku, kemur sú nýlunda þar fram að efla skuli stefnumótandi aðferðir við rannsóknir í taugakerfinu og að taugakerfinu verði veitt meiri athygli í rannsóknarstefnum innan landa og á alþjóðavísu. Í skýrslunni kemur einnig fram að nota skuli lyf, gervigreind og aðra nýstárlega tækni sem gæti auðveldað að samræma rannsóknarniðurstöður og borið kennsl á nýja valkosti varðandi meðferðir sem gæfu möguleika á lækningu í taugakerfinu.

Með þessum dýrmætu orðum er Tetros að hvetja þjóðir heims til að taka sérstaklega til hendinni í leit að lækningu í taugakerfinu, þar með talið lækningu við lömun/mænu­skaða og nota til þess öll ráð. Þessi orð hans rötuðu í skýrsluna meðal annars vegna hvatningar Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og hans fólks í utanríkisráðuneytinu, starfsfólks sendiráðsins í Genf og Mænuskaðastofnunar Íslands um að ýtt verði úr vör sérstöku átaki til að finna lækningu við lömun/mænuskaða undir leiðsögn stofnunarinnar.

Árum saman hefur greinarhöfundur bent í ræðu og í riti á að hægt gangi að finna lækningu við lömun/mænuskaða og á nauðsyn þess að gera þurfi sérstakt átak í þá veru undir merkjum alþjóðastofnunar. Nú er svo komið að hugsjónin er komin á dyrapallinn hjá WHO. Til að hún megi komast af blaði og í framkvæmd þurfa þjóðir heims að samþykkja hin dýrmætu orð Tetrosar á Alþjóðaheilbrigðisþinginu sem haldið verður árið 2021. Greinarhöfundur biður ráðherra og alþingismenn, embættismenn, fréttamenn, lækna og alla Íslendinga sem hafa tækifæri til að vekja athygli kollega sinna í öðrum löndum á mikilvægi málsins að gera það.