Getur köttur verið í senn lifandi og dauður? „Ekkert“ skiptir máli. Allt sem við gerum ekki, segjum ekki og verðum ekki, markar líf okkar jafndjúpt og það sem við gerum, segjum og verðum. Hið stóra „ef“ – hvað hefði getað orðið – svífur stöðugt yfir vötnum: Hvað ef ég hefði þegið starfið, flutt til útlanda, mætt í partíið, stungið upp á stefnumóti?

Sjaldan hefur þetta stóra „ef“, þetta „ekkert“, verið jafnáþreifanlegt og nú. Aðgerðir vegna COVID-19 faraldursins hafa svipt okkur tækifærum sem áður þóttu sjálfsögð. Þar sem áður voru krossgötur – bíó eða leikhús, borgarferð eða strandleyfi – er nú aðeins sprittlyktandi einstefna með nálægðartakmörkunum.

Að sögn breska sálfræðingsins Adam Phillips skiptist tilvist okkar í tvennt: Í hið eiginlega líf og fantasíulíf, líf sem við lifum aldrei en við teljum að hefði getað orðið. Þetta „ólifaða“ líf, samkvæmt Phillips, tekur gífurlegt pláss í hugum okkar, svo mikið að við eyðum í raun ævinni með manneskjunum sem okkur tókst aldrei að verða. Lífshlaup okkar verður harmkvæði um óuppfylltar óskir, ónýtta hæfileika og ókannaðar slóðir. Til eru þeir sem taka hugmyndinni um hin draumkenndu hliðarlíf bókstaflega. Skammtafræði er grein eðlisfræðinnar sem fjallar um atóm og smærri eindir. Hið smáa er þó ekki einfalt. Eðlisfræðingurinn Richard Feynman fullyrti „að enginn skildi skammtafræði.“ Albert Einstein sagði skammtafræði „hrollvekjandi“.

Nú ber hins vegar svo við að ein undarlegasta kenning skammtafræðinnar aflar sér hratt nýrra fylgjenda. Kenningin um „fjölheima“ hljómar svona: Til eru óendanlega margir heimar þar sem fyrirfinnast óendanlega margar mismunandi útgáfur af þér. Í nýjustu metsölubók sinni færir eðlisfræðingurinn Sean Carroll rök fyrir því að í hvert sinn sem við tökum ákvörðun um að ganga einn veg, frekar en annan, verði til annar heimur, þar sem við völdum hinn.

Hugmyndin er í anda hugsaðrar tilraunar um kött Schrödingers, sem samkvæmt skammtafræði er bæði lífs og liðinn þar sem hann dúsar í lokuðu boxi. Erfitt er að segja til um, hvort tilhugsunin um að einhvers staðar í hliðarveröld fari útgáfa af okkur sjálfum, sem flatmagar á COVID-lausri sólarströnd með bók og kokteil, sé huggun eða harmur. Fyrrnefndur sálfræðingur, Adam Phillips, telur þó gremju okkar yfir því sem hefði getað orðið, alls ekki eyðileggingarafl. Þvert á móti. Phillips er þeirrar skoðunar, eins og Freud, að leit okkar að nautn og ánægju liggi til grundvallar hæfni okkar til að lifa af.

Segir Phillips að innst inni vitum við að við séum „ekkert merkilegri“ en til dæmis „maur eða blóm“ og til þess að koma í veg fyrir lamandi vonleysi yfir þeirri staðreynd þurfum við að finna leið til að gera líf okkar bærilegt. Þegar við leyfum okkur að finna til gremju, öðlumst við skilning á því hvað það er sem veitir okkur ánægju. Það er því hið „ólifaða“ líf og gremjan sem því fylgir, sem gerir okkur kleift að lifa hinu eiginlega lífi.

Nýjar hefðir

Sumarið er handan hornsins. Á upplýsingafundi almannavarna í vikunni varaði hinn sívinsæli yfirlögregluþjónn, Víðir Reynisson, við því að „sumarið yrði ekkert eins og önnur sumur“. En þótt Víðir segði að ekki mætti stofna í hættu þeim árangri sem náðst hefði gegn kórónaveirufaraldrinum með tilraunum til að komast hjá reglunum, talaði hann alls ekki fyrir tómum leiðindum. Hann hvatti til þess að við nýttum okkur gremjuna yfir hinum „ólifuðu“ lífum á uppbyggilegan hátt.

„Núna gildir það í sumar að við ætlum að skapa nýjar hefðir og nýjar minningar,“ sagði Víðir. Ef köttur getur í senn verið lifandi og dauður hljótum við að geta látið hliðarheimunum eftir útihátíðir og sólarlandaferðir eitt sumar.

Hlýðum Víði.