Árið 2016 skrifaði ég grein sem bar heitið „Vaxandi þjóð­ernis­hyggja í Kína“. Greinin var skrifuð eftir að dómur féll hjá Al­þjóða haf­rétta­dóm­stólnum sem sagði að stjórn­völd í Peking höfðu hvorki laga­legan né sögu­legan grunn fyrir því til­kalli sem þau gerðu í Suður-Kína­hafi. Lög­sögu­deilur Kín­verja við ná­granna­lönd sín voru þá að hitna þar sem kín­versk stjórn­völd byrjuðu að reisa flota­stöðvar og flug­velli á mann­gerðum eyjum í kringum þessi um­deildu svæði.

Kín­verska ríkis­stjórnin brást harka­lega við á­kvörðun dóm­stólsins og neitaði að viður­kenna hana. Al­menningur í Kína leit einnig á þessa á­kvörðun sem árás á þjóð sína og upp blómstraði mikil þjóð­ernis­hyggja í borgum landsins. Þrátt fyrir þennan á­rekstur þá voru þá­verandi sam­skipti Kína við um­heiminn frekar já­kvæð. Engu að síður lýsti ég yfir á­hyggjum mínum á þeirri þróun að sjá stækkandi heims­veldi neita að virða niður­stöður al­þjóða­sam­fé­lagsins.

Á sama tíma gagn­rýndi ég Donald Trump sem þá var ný­kjörinn for­seti Banda­ríkjanna. Aðal ógnin sem ég benti á var sú að fá­fræði þessarar veru­leika­stjörnu á al­heims­mál­efnum og sam­skiptum ríkjanna beggja myndi á endanum skapa mikla á­hættu­klemmu. Sú grein endaði orð­rétt: „Ef Donald Trump kýs að bregðast við að­gerðum Kín­verja á næstu árum með sömu hvat­vísi og hann hefur brugðist við stór­stjörnum á Twitter klukkan þrjú að morgni, þá verður sam­band þessara tveggja þjóða ó­um­deilan­lega það mikil­vægasta á 21. öldinni, en engan veginn eins frið­sælt og allir hefðu vonast eftir.“

Einungis fjögur ár eru liðin síðan þessar greinar voru birtar og er því miður engin önnur leið að orða nú­verandi á­stand en svo að kalt stríð sé hafið á milli stjórn­valda í Kína og í hinum vest­ræna heimi. Sam­skiptin á milli Kína og Banda­ríkjanna hafa ekki verið svona slæm síðan heim­sókn Nixons til Kína árið 1972. Bresk stjórn­völd hafa bannað fjar­skipta­fyrir­tækjum sínum að nota búnað frá Huawei og hefur for­sætis­ráð­herra Ástralíu kallað eftir al­þjóð­legri sjálf­stæðri rann­sókn á upp­runa kóróna­veirunnar, sem leiddi til þess að kín­versk stjórn­völd lögðu 80% inn­flutnings­toll á ástralskt bygg. Yfir­völd í Ástralíu hafa nú einnig lagt fram yfir­lýsingu til Sam­einuðu þjóðanna sem sakar Kín­verja um að fara fram með of­forsi og þjösna­skap og í þessum töluðu orðum er verið að loka bæði banda­rískum og kín­verskum ræðis­skrif­stofum í Hou­ston og Chengdu.

Al­þjóða­sam­fé­lagið hefur staðið í miklum deilum undan­farin ár við kín­versk stjórn­völd, ekki að­eins út af deilum í Suður-Kína­hafi, heldur einnig í tengslum við að­gerðir stjórn­valda í Hong Kong, fangelsun Úýgúr­múslima í svo­kölluðum „endur­menntunar­búðum“ og á­sakanir um njósnir af hálfu Huawei. Við­brögð kín­verskra yfir­valda á fyrstu vikum CO­VID-19 og ævin­týrið sem fylgdi í kjöl­farið var einungis dropinn sem fyllti mælinn. Þær munn­legu á­rásir stjórn­valda sem beinast nú hvor gegn annarri virðast eiga það mark­mið að komast að því hverjum þetta nú­verandi á­stand er að kenna. Þó að það séu vissu­lega sumir sem beri meiri á­byrgð en aðrir, þá var þetta nýja kalda stríð því miður ó­hjá­kvæmi­legt.

Í Al­þjóða­sam­skiptum tölum við oft um „gildru Þúkýdídes“, sem nefnd er eftir hinum gríska sagna­ritara sem ritaði sögu Pelóps­skaga­stríðsins. Gildran lýsir sér þannig að þegar nýtt heims­veldi rís upp mun þá­verandi heims­veldi líta á það sem ógn og í kjöl­farið brýst út stríð á milli þeirra tveggja. Á seinustu 500 árum hefur þetta verið raunin í 12 af 16 slíkum til­fellum. Þrátt fyrir að eiga sinn upp­runa í forn­grískri sögu, þá er þetta einungis átta ára gamalt hug­tak og var það í raun samið til að lýsa nú­verandi sam­bandi á milli Kína og Banda­ríkjanna.

Það er hins vegar ó­lík­legt að stór hernaðar­á­tök muni brjótast út. Á tímum Sovíet­ríkjanna var það ótti okkar við kjarn­orku­vopn, eða „MAD“ (Gagn­kvæm Altryggð Ger­eyðing Allra) sem hélt báðum hliðum í skefjum. Nú eru það efna­hags­legu tengslin á milli stór­veldanna sem passa upp á að allir við­haldi á­kveðinni ró. Báðar hliðar geta ekki brugðist of harka­lega við án þess að skjóta sig sam­tímis í fótinn og má líta á það sem já­kvæðan hlut.

Engu að síður þá þarf að horfast í augu við breytta fram­tíð. Það má í raun líta á þessi nú­verandi „átök“ sem hálf­gerðar þreifingar af hálfu stjórn­valda til að meta hvernig hægt sé að standa vörð um gildi og öryggi þjóða, sam­hliða því að við­halda efna­hags­legum sam­skiptum og tryggja þannig stöðug­leika. Þrátt fyrir að vera lítil þjóð, þá erum við Ís­lendingar ekki eins stikk­frí frá þessum breytingum og við viljum halda. Við vorum fyrsta vest­ræna þjóðin til að undir­rita frí­verslunar­samning við Kína og sitjum við einnig í Heim­skauts­ráðinu. Við erum frið­sæl þjóð og viljum að sjálf­sögðu geta leikið okkur fal­lega með hinum börnunum í sand­kassanum, en við verðum líka að mynda skýra af­stöðu til að forðast ill­kynja utan­að­komandi á­hrif. Ef engin stefna er nú þegar til staðar af hálfu ís­lenskra stjórn­valda til að á­varpa þetta breytta lands­lag, þá vona ég inni­lega að slík stefna sé að minnsta kosti komin á teikni­borðið.