Goðsögnin um Atlantis er flestum kunn. Um hið mikla meginland sem eyddist í flóði, sem leiddi til þess að mikil siðmenning lagðist af og fólk þurfti að flýja í stórum stíl á aðrar slóðir.

Lengi hefur verið deilt um sannleiksgildi þessarar frásagnar, þó líklegt sé að hún eigi sér rætur í einhverjum atburðum sem hafa átt sér stað einhvern tímann í fyrndinni. Að sumu leyti má segja að mannkynið standi frammi fyrir slíkum atburðum í dag. Og það af eigin völdum.

Eftir útkomu skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna núna í byrjun ágúst er ljóst að við erum ekki lengur í þeirri stöðu að takast á við loftslagsvána áður en hún skellur á okkur, heldur eru áhrifin nú þegar farin að raungerast.

Staðan núna er sú að við getum haft áhrif á hversu mikil hækkun hitastigs verður, með því að hætta að nota jarðefnaeldsneyti og haga okkur á þann hátt að gróðurhúsalofttegundir haldi áfram að safnast fyrir í andrúmsloftinu. Að því leyti má finna bjartsýnistón í þessari svörtu skýrslu.

Ef við myndum algerlega snúa af þeirri leið sem við höfum verið á undanfarnar aldir og ná losun niður í 0 á þessum áratug, gæti það samkvæmt skýrslunni tekið um 20 ár fyrir loftslagið að jafna sig. Allt eru það hins vegar getgátur byggðar á líkum, en það er alveg skýrt að hlýnun jarðar er af okkar völdum og afleiðingarnar eru farnar að koma fram.

Og þær munu bara versna.

Þessar afleiðingar eru þurrkar og tilfærslur á loftslagsbeltum til norðurs. Aukin úrkoma og öflugri stormar. Flóð, sem áður áttu sér stað um það bil einu sinni á öld munu eiga sér stað einu sinni á ári að jafnaði. Sjávarborð mun hækka um á bilinu 1–20 metra eftir því hversu mikil hlýnunin verður.

Sumir vísindamenn hafa jafnvel talað um 50 metra í verstu sviðsmyndunum. Það þarf auðvitað ekki að taka fram hvílíkar afleiðingar slík hækkun sjávar hefur á þéttbýl svæði sem liggja lágt og eru margar stærstu borgir heims á slíkum svæðum. Aðeins eins metra hækkun á sjávarmáli myndi þýða verulega ógn við fjölmennar strandborgir á borð við New York, Tókýó, Mumbai, Dhaka, Rio de Janeiro, Lagos og Kaíro.

Það, til viðbótar við aukna úrkomu og öfluga storma, mun skapa gríðarleg vandamál og líklega leiða til mikilla fólksflutninga, með þeim áskorunum sem slíku fylgja. Flóttamannabylgjan mikla árið 2015, í kjölfar Sýrlandsstríðsins, verður eins og neðanmálsgrein í þeim samanburði.

Þannig mun hækkun sjávarborðs um 2 metra miðað við núverandi búsetumynstur leiða til þess að um 187 milljónir manna missa heimili sín og um 1,8 milljónir ferkílómetrar af landi munu tapast.

Að sama skapi munu þessar breytingar hafa alvarleg áhrif á ferskvatnsstöðu og hætta er á að átök geti brotist út um aðgang að fersku vatni, sem verður fyrirsjáanlega af skornum skammti, en spár gera ráð fyrir að innan þriggja áratuga muni, ef fram heldur sem horfir, um fimm milljarðar manna búa á svæðum sem búa við skort á ferskvatni.

Stærsta ábyrgðin liggur á herðum ríkisstjórna heimsins, sem koma saman í október með tillögur til að mæta skuldbindingum Parísarsáttmálans frá 2015, sem miðar að því að halda hlýnun jarðar undir 2 gráðum miðað við upphaf iðnbyltingar.

Þessi hækkun er auðvitað meðaltal, en hækkunin er meiri yfir landi en yfir sjó og meiri nær pólsvæðunum en fjær þeim. En ábyrgðin er líka á okkar herðum, okkar allra og beinist sérstaklega að neysluvenjum okkar. Þannig er kjötframleiðsla það atferli sem einna mest áhrif hefur á útblástur lofttegunda sem stuðla að hækkandi hitastigi.

Áðurnefnd milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna mælti með því í skýrslu árið 2019 að mannkynið myndi leitast við að draga úr kjötneyslu og neyta plöntuafurða í meira mæli. Til þess að svo megi verða þurfa ríkisstjórnir að skapa skilyrði til þess og hætta að ýta undir kjötframleiðslu með fjárhagslegum hvötum.

Þessi hvatningarorð milliríkjanefndarinnar eiga vel við hér á landi, þar sem stutt er duglega við framleiðslu kjöts til manneldis, með óæskilegum áhrifum á umhverfi og heilsu. Við sjálf getum flýtt fyrir slíkri breytingu með því að draga úr neyslu kjöts.

Í öðru lagi þurfa orkuskipti að eiga sér stað og þar hafa ríkisstjórnir einnig veigamiklu hlutverki að gegna, með því að búa til hvata fyrir þau og þá innleiða bann við brennslu jarðefnaeldsneytis áður en áratugurinn er úti.

Við Íslendingar getum tekið forystu í baráttunni við loftslagsvána, en til þess að svo megi verða þarf ríkisstjórn Íslands að sýna meiri kjark en gert hefur verið hingað til.

Það hefur reynst erfitt að hvetja þá sem um véla til dáða gegn þessari vá, sem raungerist svona hægt. Auðveldara er að ná fram aðgerðum þegar áföllin ríða yfir skyndilega, eins og t.d. í tilfelli Covid-19.

En merkin um hið nýja Atlantis eru allt um kring og tíminn til að bregðast við er núna. Annars verður það um seinan.