Ég þarf að játa svolítið. En áður en farið er lengra vil ég gjarnan biðja lögregluna um að skoða bara auglýsinguna hérna til hliðar. Það er örugglega hægt að láta sig dreyma um betri dýnu og drjúgan svefn.

Þar sem við erum þá komin hérna örfá, í öruggan trúnaðarhring, er öruggt að deila leyndarmálum.

Í um það bil þrjátíu ár hef ég verið helst til of iðin við að kitla pinnann og aka of hratt. Og fengið fleiri hraðasektir en ég kæri mig um. Ég gjörsamlega vanmet aðstæður og ofmet ökuhæfni mína, líkt og allt of stór hluti landsmanna. Í flestum tilfellum hefur mér þó ekki legið svona mikið á í raun. Nema í eitt skiptið.

Þá var ég að keyra úr Skagafirði yfir á Blönduós, í svartaþoku á hraða sem hefði í það minnsta átt að færa mér einhverja punkta og mjög háa sekt. Mögulega tímabundna sviptingu. En þegar lögreglan stöðvaði mig sýndi hún því fullan skilning að við værum að drífa okkur. Klukkan var orðin margt og ungar stúlkur þurftu að komast á Sólarball. Blönduóslögreglan, sem landsþekkt er fyrir að taka hart á hraðabrotum, vísaði okkur því bara áfram með þeim orðum að fara aðeins varlegar. Og skemmta okkur vel.

En flest erum við ekki ungt fólk, að verða of sein á lífsnauðsynlegt ball. Við erum oftast bara að fara í vinnuna, í búðina eða skutla börnum í tómstundir. Og innanbæjar skiptir það ekki öllu hvort við keyrum á 50 eða 30. Á hinn bóginn getur það verið lífsnauðsynlegt fyrir aðra að við keyrum hægar. Fyrir þau sem geta orðið fyrir bílnum skiptir öllu hvort við erum á 50 eða 30.