Á þessum tíma árs þegar ég ek um sveitir landsins og horfi á nýslegin tún þá reikar hugurinn oft í sveitina mína í Ölfusi. Um leið finn ég aftur lyktina af nýslegnu heyi og heyri Iron Maiden glymja úr vasadiskóinu, yfirgnæfandi taktfast dísilglamur grænu Deutz-dráttarvélarinnar. Um leið og kúplað var frá og drifskaftið tengt hristist dráttarvélin áfram og dró á eftir sér fjögurra arma snúningsvélina sem kastaði blautu heyinu aftur fyrir sig.

Þetta fannst mér alltaf skemmtilegasta verkið í sveitinni, að snúa heyi. Sérstaka aðgát þurfti að viðhafa þegar maður keyrði fyrsta hringinn. Gæta þurfti að því snúningsvélin lenti ekki ofan í skurði, þar sem hún var töluvert breiðari en dráttarvélin, eða hún flæktist í girðingu. Þegar þessum fyrsta hring var lokið var haldið áfram og nýr hringur tekinn innan við þann fyrri. Um leið gat maður verið kærulausari, fengið sér eina sígarettu og hækkað í vasadiskóinu.

Eftir því sem verkinu vatt fram fór túnið að taka á sig annan lit. Eftir að dökkgrænni og þurrari hlið grassins var kastað upp lenti það aftur skærgrænt og blautt. Horfandi á þetta leið manni eins og maður hefði málað túnið skærgrænt. Þetta þurfti svo að endurtaka reglulega þangað til grasið var orðið þurrt í gegn og tilbúið að binda í bagga og fara með í hlöðu.

Svona heyskapur eins og ég þekkti hann er því miður liðin tíð. Nú þarf ekki lengur að þurrka hey á túnum áður en það er hirt. Heldur er því umsvifalaust pakkað inn í stórar hvítar plastrúllur að loknum slætti. Mér finnst enn þann dag í dag þetta vera ein heiðarlegasta vinna sem ég hef um ævina unnið. Framfarir í heyskap og annars staðar eru af hinu góða. Söknuður í bland við fortíðarþrá er það líka.