Hafið er túlkunarstríð um niðurstöður könnunar sem Rúnar Vilhjálmsson prófessor við HÍ gerði fyrir BSRB og birtar voru á dögunum. Í Mogganum er talað um misnotkun á hlutverki stéttarfélaga og forystumenn Læknafélags Reykjavíkur grípa til samlíkingar úr barnabókmenntum og minna þá helst sjálfir á andhetjuna góðu Herra Ómögulegan.

Staðreyndirnar tala sínu máli: Átta af hverjum tíu vilja að hið opinbera reki sjúkrahúsin, sjö af hverjum tíu að það reki heilsugæsluna og sex af hverjum tíu að hjúkrunarheimilin séu rekin af hinu opinbera. Mörg eru fylgjandi blöndun opinbers og einkarekstrar í þjónustu tannlækna, sjúkraþjálfara og sálfræðinga enda hefur sú þjónusta fest sig í sessi þó enn eigi eftir að fjármagna niðurgreiðslu hins opinbera á þjónustu sálfræðinga.

Ekki fer á milli mála í niðurstöðunum hve lítill hluti þjóðarinnar vill að heilbrigðisþjónustan sé alfarið í höndum einkaaðila. Það eru afgerandi og skýrar niðurstöður.

Stefna Samfylkingarinnar í heilbrigðimálum er skýr og í takt við vilja þjóðarinnar. Opinber rekstur heilbrigðiskerfisins er kjölfesta kerfisins. Lykillinn að góðri og árangursríkri heilbrigðisþjónustu er að aðgengi að henni sé ekki háð efnahag fólks eða búsetu og gjaldtöku verður að halda í lágmarki.

Árið 2019 var 8,8% af vergri landsframleiðslu hér á landi varið til heilbrigðisþjónustu. Það er minna hlutfall en á öllum Norðurlöndunum og í Bretlandi. Eins og aðrar rannsóknir sýna þá kallar bætt heilbrigðisþjónusta og forvarnir á aukin útgjöld til skamms tíma en sparar stórar upphæðir í betri lýðheilsu til langs tíma.

Höfum í huga að þótt einkarekstur geti átt heima á ákveðnum sviðum heilbrigðisþjónustu dregur hann ekki úr heildarkostnaði hins opinbera við að halda úti öflugu heilbrigðiskerfi án tillits til efnahags. Niðurstöður könnunarinnar sem var framkvæmd fyrir BSRB sýna svo ekki verður um villst að vilji almennings og stefna Samfylkingarinnar fara saman.

Höfundur er fyrrverandi formaður BHM og leiðir framboðlista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.