Síðasta sunnudag var aftöku Jóns biskups Arasonar og sona hans minnst í Skálholti með ræðu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra.

Fyrir ári kom út bók hans: Uppreisn Jóns Arasonar. Þar rekur höfundur átök Hólabiskups við konungsvaldið og dregur þá ályktun í lokin að pólitískir leikir hans hafi verið „heldur fífldjarfir.“

Mikil völd

Seðlabankinn er valdamesta stofnun framkvæmdavaldsins. Flest verkfæri bankans voru áður í höndum kjörinna fulltrúa.

Hér eins og í öðrum löndum voru þessi verkfæri smám saman afhent sérfræðingum til að tryggja fagleg sjónarmið við beitingu þeirra og koma í veg fyrir að pólitískir sérhagsmunir og skammtíma sjónarmið hefðu of rík áhrif á stjórn peningamála.

Í þessu felst viðurkenning stjórnmálanna á eigin veikleikum, sem gerir aftur á móti kröfur til þeirra, sem fá þetta mikla vald í hendur, að halda sig utan við vígvöll pólitískra skylminga. Á því veltur traustið.

Á stuttum tíma hefur Ásgeir Jónsson stýrt lögbundnum verkefnum Seðlabankans styrkri hendi og af þekkingu. En pólitískir leikir hans eru á hinn bóginn umhugsunarefni.

Borgarstjórnarkosningar

Einn af pólitískum leikjum seðlabankastjóra er að kenna meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur um verðbólguvöxtinn. Án þess að fyrir liggi fagleg athugun bankans staðhæfir seðlabankastjóri að lóðaskortur hafi leitt til hækkunar á íbúðaverði.

Þá hefur seðlabankastjóri gagnrýnt þéttingarstefnu borgarstjórnarmeirihlutans og lagt til að brotin verði ný lönd undir lóðir eins og minnihlutinn vill.

Einn af nefndarmönnum í peningastefnunefnd og hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands hefur af þessu tilefni bent á að lækkun vaxta og ýmsar ráðstafanir stjórnvalda hafi leitt til hækkunar á verði húsnæðis.

Í greinargerð um orsakir verðbólgunnar, sem seðlabankastjóri skilaði til forsætisráðherra í febrúar, er ekki minnst einu orði á lóðaskort. Þar rekur hann sjálfur verðbólgu á húsnæðismarkaði til lækkunar vaxta og ýmissa annarra ráðstafana stjórnvalda.

Engu er líkara en seðlabankastjóri hafi talið sér skylt að sýna fagmennsku andspænis forsætisráðherra, en flokkur hennar á einnig aðild að borgarstjórnarmeirihlutanum. Gagnvart almenningi þurfi hins vegar ekki að vanda málflutninginn.

Út og suður

Í fyrra ákvað seðlabankastjóri að þvinga lífeyrissjóði til að samþykkja tímabundin gjaldeyrishöft. Á þeim tíma var ekki lagaheimild fyrir þeirri aðgerð. Það var ríkisstjórnar og Alþingis að taka þá ákvörðun.

Um svipað leyti gagnrýndi seðlabankastjóri meirihlutann í borgarstjórn og samgönguráðherra fyrir að geta ekki dembt sér umsvifalaust í Sundabraut til að fjölga störfum eftir stöðvun ferðaþjónustunnar.

Bankinn getur hvatt opinbera aðila til fjárfestinga. En það er kjörinna fulltrúa að ákveða hverjar þær skuli vera. Þar liggja mörkin.

Það er svo önnur saga að ári seinna byrjaði bankinn að hækka vexti til að draga úr spennu. Hugsanlega hefði vaxtahækkunin orðið enn meiri ef allt hefði verið komið á fullt við brúarsmíð yfir sundin blá.

Lítil dýpt

Það fór í taugarnar á ríkisstjórninni þegar seðlabankastjóri staðhæfði að hagsmunaöfl stjórnuðu landinu. Þó að sú pólitíska greining hafi um margt verið rétt fellur hún fyrir utan verksvið bankans.

Seðlabankastjóri reyndi svo að þóknast ríkisstjórninni fyrir kosningar með því að gagnrýna þá sem töluðu fyrir fjölþjóðlegu samstarfi um gengisstöðugleika.

Til að rökstyðja mál sitt nefndi hann að gengisstöðugleikinn, sem var kjarninn í þjóðarsáttinni fyrir þremur áratugum, hefði ekki dugað til lengdar.

Þjóðarsáttin dugði í áratug. Hún er ein best heppnaða efnahagsráðstöfun síðari tíma. Samanburðurinn sýndi litla dýpt í pólitískri hugsun. Verra var: Hann átti ekki við þá tillögu, sem til umræðu var; hún var annars eðlis.

Að gæta lítt að sér

Seðlabankastjóri þarf ekki að óttast að æðra vald sæki að honum eins og Hólabiskupi, enda hefur hann staðið sig vel í því, sem honum „er innan handar að standa sig í.“

Pólitískir leikir seðlabankastjóra hafa sem sagt ekki verið fífldjarfir; aðeins óskynsamlegir. Þeir geta þó, verði framhald á, veikt það traust, sem Seðlabankanum er svo mikilvægt að varðveita.

Þegar Hólabiskup átti enga leiki eftir orti hann:

Hent hefur áður gilda garpa

að gæta lítt að sér.