Fyrir jól var sýnd á Stöð 2 þáttaröð sem byggist á sagnaheimi breska rithöfundarins Philip Pullman. Þættirnir heita á ensku „His Dark Materials“ og segja söguna sem kemur fram í þríleik með sama nafni. Sögusviðið er veröld þar sem þrúgandi drottnunarvald trúarreglu nokkurrar togast á við hamingju-, visku og frelsisleit þeirra sem standa utan múra kirkjunnar og streitast gegn kæfandi áhrifum hennar. Hvort sem það er almenn lífsgleði, sköpun, gagnrýnin hugsun eða vísindaleg forvitni—öllu þessu vill Æðstaráðið halda í skefjum og beitir til þess öllum hugsanlegum ráðum.

Vondir og góðir

Að sjálfsögðu heldur ekki nokkur maður með grámyglulegum og augndauðum þjónum kirkjunnar sem bersýnilega haga öllu sínu starfi, og beita öllu sínu valdi, til þess eins að viðhalda stöðu sinni. Í sögunni hirðir kirkjan nákvæmlega ekkert um sannleika, réttlæti eða hamingju fólks. Kerfið sjálft, stofnunin, stöðugleikinn, röðin og reglan eru það eina sem skiptir máli. Í þannig stofnunum velst vitaskuld smám saman til forystu einungis fólk sem er ýmist siðblint frá fæðingu eða rótskemmt af mótlæti, spillingu og hugsýki. Forsenda þess að ná árangri er oftast sú að vera spilltari og harðsvíraðri heldur en aðrir sem keppast um völdin.

Hetjur sögunnar eru svo þau sem hafa hugrekki til þess að standa gegn kreddunum og leita sannleikans gegn hinu alltumlykjandi ógnarvaldi trúarreglunnar. Illskan sem við er að glíma er ekki aðeins voldug ein og sér, heldur hefur hún einnig spillt mörgu góðu fólki, ýmist til sinnuleysis eða meðvirkni. Vald hins illa er djúpstætt en tekst þó aldrei að þurrka endanlega út hið góða.

Sagan er hrollvekjandi lýsing á því ástandi sem ríkir þegar búið er að steypa saman í eina stofnun bæði veraldlegu valdi og óskoraðri túlkun á þeirri trúarlegu rétthugsun sem ætlast er til þess að samfélag beygi sig undir. Boðskapurinn er bráðhollur fyrir hugsandi fólk á öllum aldri. Mannkynssagan geymir því miður svo ótal mörg dæmi um hörmulegar afleiðingar þess þegar rétttrúnaður nær völdum, hvort sem honum er haldið fram af kirkju, ríkisvaldi eða hvoru tveggja saman. Frjáls og gagnrýnin hugsun er nefnilega æðsta gildi mennskunnar og mikilvægasta vörnin gegn kúgun og blekkingum. Jafnvel þótt slík hugsun geti leitt til óþægilegra deilna og vesens fyrir valdhafa þá er mikilvægt að gleyma því ekki hvaða afleiðingar það hefur að kæfa óþægilegar skoðanir.

Þeir sem ekki kynnast kirkjunni nema í gegnum svona skáldskap eða söguleg dæmi um svipað ástand gætu haldið að ástand eins og greint er frá í þáttunum sé óhjákvæmilegur fylgifiskur skipulagðra trúarbragða. Og sagan kennir okkur að góð ástæða sé til að fara varlega, einkum í því að blanda saman trúarsetningum og refsimætti ríkisvaldsins. En raunveruleikinn er hins vegar sá að langoftast—og hjá langflestum—getur skipulagt trúarlíf, óháð kennisetningum, verið ákaflega dýrmætur og nærandi þáttur í tilverunni.

Vissulega eru dæmi um það í flestum trúarbrögðum, bæði nýleg og gömul, fjarlæg og nálæg, að áhrifavald trúarleiðtoga hafi verið misnotað til ills. Meira að segja sakleysislegir jóga-gúrúar virðast hafa ríka tilhneigingu til þess að sannfærast smám saman um að það sé mikilvægt fyrir sáluhjálp söfnuða sinna að þeir fái sjálfir að sænga hjá sem flestum konum og eignast sem flesta bíla. Breyskleiki þeirra sem fara með trúartengd völd einskorðast því svo sannarlega ekki við kristna kirkju.

Siðrof eða rofnir siðir

Það er mjög vinsælt að núa biskupi Íslands því um nasir að hún hafi fyrir skemmstu notað orðið „siðrof“ í tengslum við þá breytingu að ekki sé lengur kennd kristnifræði í skólum. Það má vel vera að orðið sjálft sé notað í öðrum skilningi í félagsfræðilegri umræðu; en það er orðhengilsháttur og rangtúlkun að ætla biskupnum að hafa með því viljað ásaka alla aðra en kristna menn um siðleysi.

Að sjálfsögðu hefur það haft áhrif á íslenskt samfélag að ekki sé lengur kennd kristnifræði í skólum. Sum áhrifin af því eru góð, önnur slæm—og fyrir suma er þetta góð breyting en fyrir aðra verri. Það er ekki nema hjá allra heittrúaðasta fólkinu sitt hvorum megin umræðunnar sem ekki blasir við hið augljósa að svörin eru ekki svört eða hvít.

Þeir sem tortryggja kirkjuna sem mest (einkum þá sem þeir telja sig þekkja skást, sína eigin) eiga það til að fjalla um hana af ákefð sem best er lýst sem trúarlegri heift. En ástæða þess að hugtakið trúarleg heift er svo auðskilið er einmitt að það er því miður oft einkenni á trúarlegri sannfæringu—hvort sem hún er kristin, and-kristin, nýaldartengd eða jafnvel satanísk—að trúin sjálf, hefðirnar og ritúalið eru ekki lengur stuðningsstafur sem styður við fólk þegar þörf er á, heldur refsivöndur sem notaður er til þess að berja á þeim sem ekki hafa enn „séð ljósið“—hvað svo sem „ljósið“ er.

Flestir kynnast því snemma í lífinu að í einhvers konar trú og hefðum er hægt að finna stuðning og huggun þegar verkefni lífsins virðast óleysanleg. Í þessu felst engin blekking, algjörlega óháð því hvort fólk trúir hverjum bókstaf í helgum bókum, spádómskökum eða nýaldarspeki. Skilningur á þessu mikilvæga hlutverki trúarbragða, að vera einfaldlega til staðar og veita stuðning og stöðugleika, gæti dregið úr heiftinni sem oft heyrist í garð íslensku þjóðkirkjunnar. Þrátt fyrir að vera gölluð þá er hún örugglega afl til góðs í íslensku samfélagi þegar á heildina er litið.

Heiftúðlegar árásir á þjóðkirkjuna í nafni umburðarlyndis og víðsýni eru því oftast til marks um hvorugt.