„Vá, það er ruglað,“ sagði barnið mitt eftir að ég reyndi að útskýra af kostgæfni hvers vegna Joe and the Juice væri ekki lengur í brottfararsal Leifsstöðvar. Það var nefnilega fastur liður hjá okkur að birgja okkur upp fyrir flug með samloku og safa frá Joe. Barnið skildi ekki af hverju nú væri gerð krafa (eins fáránlega og það hljómar) um að veitingastaðir bjóði upp á áfengi. Ekki nóg með að verið væri að hvetja fólk til að innbyrða krabbameinsvaldandi efni, heldur líka að mæta undir áhrifum í flug.
Nýverið birtist könnun sem sýndi að rúmur meirihluti okkar vill auka aðgengi að áfengi og leyfa sölu bjórs í búðum. Nú veit ég ekki hvaða hugsun liggur að baki, en það skiptir ekki máli í hvaða búningi alkóhól kemur – allt hefur það sömu eitrunaráhrif. Líka bjórinn. Sem dæmi, þá þekktist skorpulifur varla hér á landi fyrir 1989 – áður en bjórinn kom á markað.
Undangengið ár hef ég sinnt læknisstörfum á Vogi þar sem starfsfólk leggur grísku gyðjunni Hekate lið. Hekate réttir hjálparhönd hverjum þeim sem vill úr viðjum fíknar. Sá hluti er dágóður en sjö prósent fullorðinna á Íslandi hefur lagst inn á Vog. Fjöldi annarra hefði gott af því, þar sem áætlað er að minnst 20% okkar séu með undirliggjandi fíknisjúkdóm.
Við vitum öll að umhverfið hefur gríðarleg áhrif á neyslu og þekking ein og sér dugar ekki. Hver hefur ekki heyrt af of feitum lækni eða fráskildum hjónabandsráðgjafa? Nú tel ég mig engan fanatíker, en er þetta það sem þjóðin vill? Að dreifa Bakkusi sem víðast, sem á að hafa orðið Rómaveldi að falli. Við þurfum að gera upp við okkur í hvoru liðinu við ætlum að vera, með Bakkusi eða Hekate.