Þrjár risavaxnar áskoranir standa frammi fyrir okkur jarðarbúum: loftlagsbreytingar, aukin sjálfvirknivæðing og tengt því vaxandi ójöfnuður. Áhrifin verða misjöfn eftir því hversu vel samfélög eru í stakk búin til að takast á við breytingarnar, sem eru hraðari en flestir gera sér grein fyrir. Þróunarlöndin munu eiga hvað erfiðast uppdráttar. Loftlagsbreytingar sem fela í sér fárviðri, flóð, hitabylgjur, þurrka og elda eru nú þegar farnar að hafa skaðleg áhrif á lífsviðurværi milljóna manna sem eykur líkurnar á átökum og mun óhjákvæmilega hafa mikil áhrif á Vesturlöndum vegna fólksflótta og samkeppni um auðlindir og hráefni.

Þúsaldarmarkmiðin einblíndu að miklu leyti á áskoranir í þróunarlöndunum eins og þær blasa við í dag með megináherslu á þróunaraðstoð á meðan heimsmarkmiðin 2030 horfa til framtíðar, eru mun umfangsmeiri og ná yfir öll lönd heims. Áætlaður kostnaður við heimsmarkmiðin eru 11,5 trilljónir Bandaríkjadala og 80% af þessum kostnaði þarf að fara í innviði. Það er hins vegar ljóst að hefðbundin þróunaraðstoð sem hefur dregist saman og felur í sér takmarkaða aðstoð frá örfáum ríkjum á Vesturlöndum, er langt frá því að mæta þörfum þróunarlanda sem munu dragast enn meira aftur úr.

Það sem er merkilegt við heimsmarkmiðin er samkomulag allra ríkja heims um að vaxandi efnahagslegur ójöfnuður standi í vegi fyrir framförum og því þörf á markmiðum sem tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku, arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum, jafnari tekjuöflun með áherslu á sterka innviði og sjálfbæra iðnvæðingu, borgir, neyslu og framleiðslumynstur. Þessir þættir undirstrika mikilvægi einkageirans og Sameinuðu þjóðirnar líta í auknum mæli til samvinnu hins opinbera við fyrirtæki í stað hefðbundinnar þróunarsamvinnu til að markmiðunum sé náð, sér í lagi í fátækari löndum.

Nýleg skuldbinding forsætisráðherra Norðurlandanna og stórfyrirtækja um aukna samvinnu til að takast m.a. á við loftlagsbreytingar er til marks um slíka samvinnu. Íslenskt atvinnulíf mun taka stökkbreytingum með aukinni sjálfvirkni, breyttri neyslu og möguleika á súrnun sjávar og nauðsynlegt er að hið opinbera vinni með fyrirtækjum til að búa íslenskt vinnuafl undir breytt landslag.

Ljóst er að heimsmarkmiðin nást ekki einungis með aukinni skattheimtu og þróunaraðstoð. Margir telja að framlag stórfyrirtækja í heiminum sé langt fyrir neðan æskileg mörk og ýmis spurningamerki eru sett við áhrif stórfyrirtækja í fátækum ríkjum þar sem ríkir spilling og regluverkið er veikt. Hlutverk fyrirtækja sem byggja afkomu sína á sterkum innviðum, hraustu vinnuafli og háum kaupmætti þarf að skoða í samfélagslegu samhengi enda eru fyrirtæki ekkert annað en samfélagið að störfum. Því er mikilvægt að skilja hvernig fyrirtæki geta stuðlað að jöfnuði í gegnum efnahagslega, félagslega og umhverfisvæna þróun. Einnig er mikilvægt að fyrirtæki vinni með yfirvöldum til að mæta afleiðingum sjálfvirknivæðingu en áætlað er að um 400 milljónir starfa muni hverfa á næstu árum.

Fjárfesting sem stuðlar að bættu samfélagi eða svokallað „Social Impact Investment“ er tiltölulega ný leið sem er notuð í auknum mæli til að fá fjárfesta og fyrirtæki til að setja fé í sjóði og verkefni sem ýta undir sjálfbæra og samfélagslega þróun. Verkefnaskrifstofa Sameinuðu Þjóðanna hefur sett á laggirnar sjóði á Vesturlöndum sem bjóða uppá fjárfestingaleiðir í þróunarríkjum í þremur megin geirum sem eru að gefast vel: heilsugæslu, félagslegum íbúðum og endurnýtanlegri orku. Einungis með því að styrkja og fjárfesta í innviðum, sér í lagi í þróunarríkjunum komum við til með að ná heimsmarkmiðunum og draga þannig úr líkunum á róttækum afleiðingum loftlagsbreytinga og ójöfnuðar sem draga úr lífsgæðum og ýta undir átök.

Höfundur er yfirráðgjafi hjá verkefnaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna.

Greinin er skrifuð í tilefni átaksins Þróunarsamvinna ber ávöxt sem er á vegum félagasamtaka er starfa í mannúðarstarfi og alþjóðlegri þróunarsamvinnu í samstarfi við utanríkisráðuneyti. Markmið átaksins er að hvetja fyrirtæki, stór sem smá, að taka þátt í þróunarsamvinnu og vinna þannig markvisst að framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.