Margir eru haldnir þeirri á­ráttu að gefa ráð í tíma og ó­tíma. Þetta þekkja þeir sem komnir eru yfir sex­tugt. Allir virðast hafa meiri á­hyggjur af mér í ellinni en ég sjálfur og vita hvað mér er fyrir bestu. Fólki finnst að ég eigi að að hætta að vinna og fara að spila golf. Ég á að flytja úr Hlíðunum í blokk fyrir gamlingja með lyftu, lokuðum svölum og sam­kvæmis­sal. „Þú átt að skipta bílnum út fyrir raf­magns­hjól og kaupa þér hús á Spáni og „njóta ellinnar“ á sólar­strönd.“ Ég fæ alls konar ráð varðandi matar­æði og líkams­hreyfingu frá ó­kunnugu fólki. Í póst­kassanum eru bréf frá hressum fast­eigna­sölum sem vilja selja húsið mitt. Face-bókin hefur að geyma alls konar vitur­legar ráð­leggingar um mál­far og al­menna pólitíska hegðun. Endur­menntun ráð­leggur mér að fara bæði á nám­skeið í hag­nýtu fjár­mála­læsi og heima­síðu­gerð.

Einu sinni var sagt að skipta mætti mann­kyni í tvo hópa. Annars vegar þá sem gæfu ráð sem enginn færi eftir og hins vegar þá sem bæðu um ráð sem þeir virtu að vettugi. Ég fæ ráð sem ég kæri mig ekki um og hef að engu.

Þegar þessir vel­meinandi ráð­gjafar fara með himin­skautum hugsa ég til Ólafs frænda míns pá í Lax­dæla sögu. Hann sagði ein­hvern tíma að heimskra manna ráð versnuðu eftir því sem þeir kæmu fleiri saman. Ólafur var for­spár í þessu til­liti. Mörgum öldum síðar varð inter­­netið ráðandi í allri um­ræðu þar sem bullið og „heimskra manna ráð“ tóku öll völd.