Spá­dómar um að heims­endir sé í nánd hafa fylgt mann­kyninu frá örófi alda. Á liðnum vetri hafa margir sér­trúar­hópar séð þess merki að heims­endir sé yfir­vofandi. Enda geisa styrj­aldir, hungur­sneyðir, engi­sprettu­far­aldrar í Afríku og síðast en ekki síst, pestin ægi­lega, Co­vid-19. Á enskri tungu kallast heims­endir meðal annars „apo­ca­lyp­se“, saman­ber heiti kvik­myndarinnar „Apo­ca­lyp­se Now“ eftir Coppola. Orðið er komið úr grísku, en löngu fyrir upp­haf tíma­tals okkar voru á reiki heims­enda­kenningar sem kallast einu orði „apoka­lyptík“. Þetta var sér­stök bók­mennta­stefna hjá Ísraels­mönnum hinum fornu og blómstraði hjá þeim aldirnar fyrir fæðingu Krists. Margar af yngstu bókum Gamla testa­mentisins og Apó­krýfu-bókunum falla ein­mitt undir þessa stefnu. Þær vildu af hjúpa hina hinstu tíma. Þessi hug­mynd um dóms­dag sem endan­legt upp­gjör góðs og ills og á­kveðinn tíma­punkt þegar heimurinn líður undir lok kom reyndar fyrst inn í gyðing­dóm og barst þaðan yfir til kristni og íslam frá zóróa­ster-á­trúnaðinum sem var ráðandi í Persíu um 500 árum fyrir Krist.

Orðið apoka­lyptík þýðir í raun af­hjúpun eða opin­berun. Að baki er sú hug­mynd að þegar heims­endir rennur upp muni af­hjúpast bæði ill og góð verk mannanna og leyndur til­gangur heimsins. Opin­berunar­bók Jóhannesar í Nýja testa­mentinu er af þessum meiði bók­mennta. Frá því er sagt í Opin­berunar­bókinni að orrusta heims­endis milli góðs og ills muni fara fram á víg­velli sem kallast þar Harma­gedd­on. Á ensku kallast staðurinn Arma­gedon og þaðan er dregið annað enskt heiti á heims­endi.

Nafnið Harma­gedd­on er komið frá Har Meggido í Ísrael, eða fjallinu (Har = fjall) Meggido. Um það lá þjóð­leiðin til forna frá Egypta­landi til Mesópótamíu og Litlu Asíu og því þótti þeim sem skrifuðu Opin­berunar­bókina lík­legt að þar myndi heims­endir hefjast. Því þetta voru þá fjöl­mennustu vega­mót heimsins. Það er magnað að standa á sléttunni undir Meggido-fjalli og lesa þessa texta og sjá fyrir sér her­fylkingar ljóssins og myrkursins safnast þar saman til upp­gjörs.
Vanga­veltur um heims­endi hafa blossað upp með reglu­legu milli­bili í aldanna rás. Í nor­rænni goða­fræði var boðað að röð ó­hjá­kvæmi­legra at­burða myndi leiða til heims­endis, eða Ragna­raka, en Ragna­rök þýðir ein­fald­lega ör­lög guðanna. Í Ragna­rökum mun allt farast. Síðan mun heimurinn vissu­lega rísa upp á ný. Rétt eins og í Opin­berunar­bók Jóhannesar.

Svo nokkur dæmi séu tekin þá blómstruðu heims­enda­spá­dómar kringum árið 1000, enda reiknuðu menn þá með að 1000 ára ríkið sem talað er um í Biblíunni, væri á enda runnið. Og þar með stæði dóms­dagur fyrir dyrum. Þá var talið frá fæðingu Jesú. Þegar ekkert varð af heims­endi árið 1000 var heims­endi frestað til ársins 1030 þegar 1000 ár voru á­ætluð frá upp­risu Jesú. En ekkert gerðist og á­fram héldu menn að spá og spekúlera. Inn­rás Mongóla í Evrópu árið 1260 var talin fyrir­boði heims­endis, sömu­leiðis mann­fellir af völdum Svarta­dauða á 14. öld, jarð­skjálfti sem skók Eng­land á 15. öld, annar slíkur sem lagði Lissabon í Portúgal í rúst árið 1755. Vottar Jehóva boðuðu heims­endi árið 1874 og aftur árið 1975, Harold nokkur Camping, banda­rískur sjón­varps­trúboði reiknaði út heims­endi 21. maí 1988, 39 fé­lagar í ofsa­trúar­hópn-um Hea­vens Gate frömdu sjálfs­morð árið 1997 þar sem þau töldu að heims­endir væri í nánd, Nostra­damus var hafður fyrir því að heimurinn færist árið 1999 – og svo mætti lengi telja. Og auð­vitað boðar Kóraninn líka kröftug­lega að heims­endir sé í nánd. Eins töldu ýmsir að fornir Maja-indjánar, sem lifðu í Mexíkó fyrir einum 500 árum, hefðu sagt fyrir um heims­endi þann 21. desember árið 2012. En ekkert varð úr dóms­degi það árið.

Það hefur reyndar oft skollið hurð nærri hælum varðandi til­vist jarðarinnar og lífs á jörðinni. Fræði­menn segja okkur að fyrir 440.000.000 árum hafi 60% af öllum dýrum jarðarinnar dáið af ó­þekktum or­sökum. Fyrir 250.000.000 árum hvarf víst 90% af öllu lífi á jörðinni, lík­legast af völdum gróður­húsa­á­hrifa. Og fyrir 65.000.000 árum dó helmingur alls lífs á jörðinni, meðal annars risa­eðlurnar. Talið er að söku­dólgurinn hafi verið loft­steinn. Og nú tala margir um að sjötta út­rýming dýra jarðarinnar sé hafin. Í þetta sinn af manna­völdum.

Margt getur líka ógnað lífinu ef maður veltir því fyrir sér og þarf ekki heims­enda­spá­dóma til. Talandi um gróður­húsa­á­hrifin þá ógnar hækkandi hita­stig jarðarinnar vist­kerfinu með ó­fyrir­sjáan­legum af­leiðingum, bráðnun jökla, hækkandi sjávar­borði og veður­ofsa. Ó­þekktir sjúk­dómar og vírusar hafa lagt milljónir að velli og geta gosið upp hve­nær sem er. Eins og bar­áttan við Co­vid-19 vírusinn sýnir okkur vel. Upp­lausn af völdum fjár­mála­hruns, fá­tækt og mis­skipting auðsins í heiminum geta hleypt öllu í bál og brand. Kjarn­orku­váin er kannski ekki jafn mikil eins og þegar ég var að vaxa úr grasi og heims­endir var meira en mögu­legur á hverjum degi. En enn þá ráða stór­veldin yfir sprengjum sem geta eytt lífinu marg­fald­lega. Öfga­sam­tök og öfga­ríki reyna að koma sér upp slíkum tryllitólum. Og kjarn­orku­ver eru dulin ógn. Þó tæknin haldi geta náttúru­ham­farir komið af stað keðju­verkun sem ógnar lífinu eins og dæmin sanna.

Og hve­nær sem er getur víga­hnöttur rekist á jörðina eins og á tímum risa­eðlanna.

Að lokum ferst auð­vitað heimurinn okkar. Sólin mun stækka og gleypa jörðina og þar með verður þessu lokið. En það gerist ekki fyrr en eftir ein 2600.000.000.000 ár.

Og þá verða allir spá­dómar öllum örugg­lega löngu gleymdir.

Þangað til er bara best að horfa á björtu hliðarnar. Því eins og danski kóngurinn Valdemar sem uppi var á 14 öld var vanur að segja (og fékk af því viður­nefnið Atter­dag - Nýr dagur) - „I mor­gen er der atter en dag“ - á morgun rennur aftur upp nýr dagur.