Heimsmeistaramótið í knattspyrnu karla hófst í vikunni en venju samkvæmt er keppni þessi haldin snemmsumars á fjögurra ára fresti. Sumarið 2018 var þessi keppni haldin í Rússlandi. Ísland var þar í fyrsta sinn rétt eins og smáríkið Katar sem nú tekur þátt í keppninni í fyrsta sinn.

En hvers vegna eru ríki að berjast um að fá að halda keppnir sem þessar þrátt fyrir mikinn kostnað? Sumstaðar þykir það réttlætanlegt að eyða stórum fjárhæðum í að halda slíka alþjóðaviðburði og kostnaður talaður niður þar sem það muni svo margt jákvætt koma í kjölfarið. Þegar smáríkið Katar ákvað að sækjast eftir því að halda heimsmeistarakeppnina þótti mörgum það fásinna. Engin mannvirki voru til staðar í Katar fyrir heimsmeistarakeppni og hiti á sumrin er slíkur að ómögulegt er að spila fótbolta.

Þess vegna er þessi keppni nú haldin á jólaaðventu en ekki um sumar. Katar hefur fengið mikla athygli. Sumir segja að skaðinn af henni verði slíkur að hann verði ekki metinn til fjár fyrir ríkið. Ímynd Katar sem auðgaðist óhóflega á olíu og gasi er nú alþekkt og skýr fyrir alheiminum. Mútur og mannréttindabrot koma fyrst upp í hugann. Stórkostleg sóun og bruðl er annað sem hlýtur að fylgja en talið er að uppbygging fótboltavalla auk annarra innviða í Katar hafi kostað 220 milljarða Bandaríkjadala. Þúsundir erlendra verkamanna létu lífið við framkvæmdirnar en í takt við þessa gegndarlausu sóun verður allt rifið að keppni lokinni.

Ég hef staðist allar freistingar og ekki horft á einn leik og ég ætla að reyna að halda því áfram. Þegar upp er staðið munu allir tapa í þessari heimsmeistarakeppni. Gleðileg jól.