Á síðustu tuttugu árum hafa tólf konur verið drepnar á Íslandi af eiginmönnum sínum, sambýlismönnum eða karlmönnum sem þær vildu ekki hlýða.

Flestar voru kyrktar, sem bendir til að gerendurnir hafi alls ekki getað hamið heift heimilisofbeldisins án þess endilega að hafa morð á stefnuskránni. Ein var barin til bana með kúbeini, önnur með slökkvitæki. Morðingja hinnar síðarnefndu mislíkaði að hún sængaði hjá hörundsdökkum mönnum. Ung kona var stungin 28 sinnum með hnífi, áður en hún komst til að vitna gegn morðingja sínum í nauðgunarmáli vinkonu sinnar. Rúmlega tvítugri stúlku var kastað fram af svölum á tíundu hæð af því hún neitaði gerandanum um samfarir.

Tvær þessara tólf kvenna voru drepnar árið 2000, tvær létust í mars síðastliðnum. Karlmenn þeim nákomnir hafa verið ákærðir fyrir manndrápin.

Fjöldi kvenna hefur einnig hlotið fangelsisdóm á Íslandi fyrir ofbeldi sem þær hafa verið beittar. Árið 2013 var spænsk kona dæmd í árs fangelsi fyrir innflutning á fíkniefnum sem troðið var inn í leggöng hennar með valdi af ofbeldismönnum á Spáni. Hún var handtekin við komuna til landsins og dæmd í fangelsi. Dómarinn lét þess getið í dómi að frásögn hennar um neyð og ofbeldi væri trúverðug. Hún var samt sakfelld og fékk tólf mánaða dóm. Hún er ein af fjölmörgum.

Líkt og í baráttunni gegn morðum og misþyrmingum í nánum samböndum hefur okkur lítið orðið ágengt í baráttu við mansalið sem svokölluð burðardýr verða fyrir. Aldrei berast fréttir af því að manseljendur þessara kvenna hafi verið eltir uppi, ákærðir og dæmdir. Þessi brotastarfsemi virðist því halda áfram óáreitt, með minniháttar afföllum af efnum og fórnarlömbum. Í síðustu viku voru þýskar mæðgur dæmdar í fangelsi fyrir að flytja annarra manna fíkniefni til landsins í líkama sínum. Engum sögum fer af kvölurum þeirra.

Þótt konur geti vissulega fagnað mörgum góðum sigrum í jafnréttisbaráttunni á undanförnum áratugum er staðreyndin sú að við erum enn drepnar inni á heimilum okkar og erum sjálfar dæmdar fyrir ofbeldisbrot gegn okkur.

Tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgar líka á milli ára. Kannski á #metoo-hreyfingin einhvern þátt í því að konur tilkynni frekar ofbeldi sem þær verða fyrir, en það er líka ástæða til að hafa áhyggjur af því að þær konur sem verða fyrir alvarlegasta ofbeldinu kyns síns vegna hafa lítið sem ekkert tekið þátt í fyrrnefndri byltingu millistéttarkvenna. Það er of hættulegt fyrir þær að stíga fram.

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gagnvart konum. Dagurinn er gott tilefni til að minnast þeirra kvenna sem kynsystur þeirra gleyma of oft í aktívisma sínum. Kvenna sem hafa dáið af völdum heimilisofbeldis án þess að hafa fundið tækifæri eða leiðir til að óska eftir hjálp, kvenna sem sitja í fangelsi fyrir ofbeldið sem þær hafa orðið fyrir, kvenna sem hafa ekkert tengslanet í landinu okkar annað en ofbeldismenn, hvort heldur er á heimilum sínum, í undirheimum eða í forstjórastólum.