Al­þjóð­leg fjár­mála­fyrir­tæki eru að flýja Bret­land. Því er spáð að helsta kaupa­héðna­hverfið í Lundúnum verði brátt ekki svipur hjá sjón. Fyrir­tækin sem þar hafa verið eru lögð á flótta til Lúxem­borgar, Frankfurt og Sviss.

Veitinga­húsa­keðja í Bret­landi sem selt hefur mexí­kóska kjúk­linga­rétti um ára­bil hefur á­kveðið að loka 48 stöðum. Á­stæðan er ein­föld. Það er kjöt­skortur í landinu, svo al­var­legur að for­ráða­menn keðjunnar sjá ekki fram úr vandanum.

Ís­lensk kona sem lengi hefur verið bú­sett í Lundúnum man ekki eftir öðrum eins vöru­skorti í hverfinu sínu frá því hún settist þar að. Í sam­tali við Frétta­blaðið segir hún að þá sjaldan bensín­stöðin í grennd sé opin myndist röð upp alla götuna.

Það er verið að sjúga vitið úr gömlu heims­veldi sem er heima­skíts­mát eftir fölskustu þjóðar­­at­kvæða­greiðslu sem nokkurt þjóð­ríki hefur staðið fyrir á síðustu tímum. Og lands­menn eru að átta sig á stöðu mála, jafnt í hverfinu sínu og at­vinnu­lífinu – og ó­nefnd eru þá há­skóla­sam­fé­lögin um allt land sem eru að tapa styrkjum og nem­endum.

„Þetta er búið að vera hæg­fara bíl­slys síðan 2016,“ sagði ís­lenski við­mælandinn í téðri frétt blaðsins, um ó­á­nægjuna með Brexit sem fer hratt vaxandi á meðal al­mennings. Ný könnun YouGov sýnir að 18 prósent Breta eru nú sátt við Brexit, en voru 38 prósent í júní.

Frá byrjun sumars hefur þeim Bretum sem ó­sáttir eru við út­gönguna sem kosið var um fyrir fimm árum fjölgað um 15 prósent. Nú segja 53 prósent þeirra að hún hafi mis­heppnast. Og það eru allir reiðir. Brexit-sinnar segjast ekki hafa fengið sitt Brexit. Og Brexit-and­stæðingar segja verstu sviðs­myndina hafa ræst.

Bret­land var auð­vitað aðili að fjór­frelsinu með full­tingi ESB-aðildar. Einn þáttur þess er frjáls för og bú­seta íbúa innan sam­bandsins og fullt frelsi til starfa á við heima­menn í hvaða aðildar­landi sem er.

Hátt í þrjár milljónir Austur-Evrópu­búa, einkum Pól­verjar, fluttu til Bret­lands eftir að austrið bættist í ESB-hópinn og tóku þar að sér erfiðustu og verst launuðu störfin, svo sem í flutninga­geiranum, land­búnaði og verka­mennsku hvers konar.

Eftir Brexit hefur þetta fólk hrakist til baka þar sem það fékk ekki lengur dvalar- og starfs­leyfi. Og það sem Brexit-for­kólfar héldu fram, að heima­menn myndu fylla í störfin, hefur ein­fald­lega ekki gerst. En, guð blessi drottninguna.