Nýverið stóð Reykjavíkurborg fyrir nýyrðasamkeppni. Óskað var eftir þýðingu á enska hugtakinu „staycation“ sem merkir sumarfrí á heimaslóðum. Vinningstillagan var „sporlof“. Orðið er samsett úr „spor“ og „orlof“; það þarf aðeins örfá spor til að komast í orlof í nærumhverfi sínu.

Vegna kórónaveirunnar hefur „sporlof“ verið örlög margra framan af sumri. Gríski heimspekingurinn Sókrates hefði verið sáttur við sporlof. „Hvers vegna furðar þú þig á því að heimshornaflakk hjálpi þér ekki, þegar ljóst er að þú ert alltaf sjálfur með í för?“ á hann að hafa sagt. „Ástæðan fyrir því að þú fórst á flæking er alltaf á hælunum á þér.“

Sagt er að ferðalög víkki hugann. Sókrates, einn mesti hugsuður sögunnar, varði hins vegar ævinni í Aþenu og trúði því að hann gæti lært allt í bókum sem hann þyrfti að læra. Sókrates var ekki eini heimakæri heimspekingurinn.

Þýski upplýsingarmaðurinn Immanuel Kant ferðaðist aldrei lengra en 100 mílur frá fæðingarstað sínum, Königsberg. Hann fór í sama göngutúrinn á hverjum degi á sama tíma og segir sagan að íbúar borgarinnar hafi stillt klukkur sínar eftir ferðum hans.

Stóuspekingar vöruðu við ferðalögum sem tilraun til að öðlast sálarró. Rómverski heimspekingurinn Seneca sagði lítið gagn í að „hrekjast frá einum stað til annars“ því „það sem við leitum að – að lifa vel – er að finna alls staðar.“

En er þá öllum fyrir bestu að fara að ráðum Birtíngs í bók Voltaire og „rækta garðinn sinn“ í sumar?

Garður breskra bænda hefur beðið skaða af sporlofi heimamanna. Í vikunni bárust fréttir af því að andlegri heilsu bænda hefði hrakað vegna ónæðis og eignatjóns sem þeir verða nú fyrir vegna vinsælda sporlofsferða. Ferðalangar arka um einkaland, slá upp tjöldum og kveikja eld; ekið er á búfé; vinnufólk verður fyrir aðkasti; rusl þekur beitiland og bifreiðum er lagt úti á miðjum vegum.

Tilfinningar okkar Íslendinga í garð sporlofsins virðast ekki síður blendnar, ef marka má pistil sem birtist í Vikublaðinu nýverið. Egill Páll Egilsson, Húsvíkingur og blaðamaður, segir starfsfólk í ferðamennsku margt hvert óttast annað íslenskt ferðasumar í anda sumarsins 2020. Ástæðuna segir hann þá að stór hluti Íslendinga gleymi öllum mannasiðum um leið og þeir pakki niður í ferðatösku. „Yfirmenn hótela og veitingastaða þurftu ítrekað að veita grátandi starfsfólki sínu áfallahjálp eftir vaktir,“ segir Egill Páll. „Verst var framkoman í garð erlends starfsfólks. Dæmi voru um að Íslendingar hreiðruðu um sig á hótellobbíum með sínar eigin áfengisbirgðir, djömmuðu fram í roða og virtu að vettugi öll tilmæli starfsfólks.“

Fegurðin í því hversdagslega

Fyrrnefndur Seneca sagði okkur heldur þarfnast „tilbreytingar í sálinni en tilbreytingar í umhverfi“. Við sem höfum gert okkur nærumhverfið að góðu frá því að heimsfaraldurinn hófst og leitast við að finna fegurðina í því hversdagslega – fuglasöng, súrdeigsbrauði, Klambratúni – kunnum að andmæla slíkri visku. Við gerum það með réttu.

Tilbreytingarleysi síðustu missera ógnar heilbrigði heilans. „Þegar heilinn kemst í kynni við umhverfi sem er nýtt og flókið bregst hann við,“ segir Paul Nussbaum, taugasálfræðingur við Háskólann í Pittsburgh. Nýjar aðstæður valda því að taugagriplur við enda taugafrumnanna fara að vaxa. „Heilinn í okkur verður eins og frumskógur.“ Nussbaum segir ferðalög vinna gegn Alzheimer og þunglyndi, minnka streitu og kvíða og ýta undir sköpunargáfu.

Tíminn mun leiða í ljós hvort nýyrðið sporlof festi sig í sessi. Flest getum við þó sameinast um þá ósk að sporlofið sjálft geri það ekki. ■