Almannavarnir hvetja þjóðina til að vera heima um þessa páska. Þessi skilaboð eru ítrekuð á hressilegan hátt í myndbandi sem slegið hefur í gegn en þar syngja söngvarar ásamt þríeykinu góða Ölmu, Víði og Þór­ólfi lagið Ferðumst innan­húss.

Það er engin óskapleg fórn á tímum kórónaveirunnar að stilla sig um að leggjast í ferðalög um landið. Nú er heppilegast að tileinka sér hugsunarháttinn: Heima er best. Enda er óskaplega gott að vera heima hjá sér, lesa góða bók og hlusta á fallega tónlist eða fást við aðra iðju sem lyftir andanum. Það er ekki hægt að láta sér líða illa í slíkum aðstæðum, langlíklegast er að sælusvipur færist yfir andlitið. Lífið getur verið óskaplega gott þótt maður sé ekki að ferðast, nema bara í huganum.

Það er alltaf þörf fyrir skynsemi, en aldrei meir en á viðsjárverðum tímum. Það er skynsamlegt að fara að tilmælum almannavarna sem biðja fólk um að sleppa því að fara í sumarbústað. Stéttarfélög hafa þegar brugðist við þessum tilmælum og lokað orlofshúsum. Einstaka eigendur einkasumarbústaða virðast iða í skinninu, þrá ekkert meir en að komast í bústaðinn sinn og eru sumir þegar komnir þangað. Þeir líta svo á að tilmæli almannavarna eigi við alla aðra en þá sjálfa og hafa eignarréttinn í huga: Ég þennan sumarbústað, ég má vera þar ef mér sýnist svo.

Þetta eru tímarnir þar sem allir verða að fórna einhverju, þar á meðal hluta af frelsi sínu. Það er erfitt, því fátt er betra og mikilvægara en frelsið. Samt krefst skynsemin þess að frelsi manna sé nú skert. Það er einfaldlega ekki skynsamlegt að leggjast í ferðalög á þessum tíma. Það er heldur ekki skynsamlegt að faðma þá sem manni þykir vænt um hitti maður þá á förnum vegi. Það er skynsamlegt að halda fjarlægð frá fólki og geyma ferðalög til betri tíma. Betri tímar munu koma. Eins og hin vitra, aldna og nánast ódauðlega Elísabet II Englandsdrottning sagði í ávarpi á dögunum þegar hún vitnaði í klassískan dægurlagatexta: We‘ll meet again.

Nú vitum við að svo margt sem við töldum alltaf sjálfsagt var það alls ekki. Þess vegna verður yndislegt að faðmast aftur og fá að ferðast að vild. Þá verður sannarlega ástæða til að fagna frelsinu eftir tíma einangrunar frá öðru fólki. Þangað til þarf að sýna þolinmæði, æðruleysi og úthald. Í lífinu þarf stundum einfaldlega að bíta á jaxlinn og víkja frá sér sjálfsvorkunn.

Nú eru páskar og þótt þeir verði haldnir á annan hátt en áður og nánast viðburðalausir þá á að vera auðvelt að njóta þeirra. Um leið er rétt að muna að páskar eru meira en súkkulaði- og kjötát. Páskar eru trúarhátíð. Messur verða ekki haldnar í kirkjum en boðskapurinn um fórn, dauða og upprisu Krists ratar vonandi til sem flestra. Sá boðskapur á stöðugt erindi, þótt of margir vilji ekki af honum vita. Sem breytir engu um það að ætíð á að vera rými fyrir trú, von og kærleika. Án trúar, vonar og kærleika væri heimurinn æði nöturlegur staður.