Hvað gerðirðu við peninginn sem frúin í Hamborg gaf þér í gær? Sé áhrifamaður í olíu­ríki spurður er líklegt að svarið sé: „Ég lagði þá inn á svissneskan bankareikning.“

Árið 2015 kynnti Niels Johannesen, prófessor í hagfræði við Kaupmannahafnar­háskóla, nýjustu rannsókn sína fyrir starfsfólki Alþjóðabankans. Niðurstöður hennar sýndu að þegar verð á hráolíu hækkar fjölgar innlánum á bankareikningum í skattaskjólum frá olíuríkum einræðisríkjum. Uppgötvunin fangaði athygli Bob Rijkers, starfsmanns bankans. Þeir Johannesen og Rijkers hófu samstarf um að skoða hvort annars konar óvænt innspýting fjár hefði sömu áhrif. Rannsóknarefnið var alþjóðleg þróunaraðstoð.

ÞÚ TRÚIR EKKI HVAÐ GERÐIST NÆST (svo notuð sé vinsæl smellibrella).

Hinn 13. október næstkomandi verður alþjóðadagur mistaka haldinn hátíðlegur. Deginum var fyrst fagnað árið 2010 í Finnlandi. Er honum ætlað að aflétta skömminni sem fylgir því að mistakast. Því mistök eru mikilvægur hluti velgengni. „Reynsla er heitið sem allir gefa mistökum sínum,“ er haft eftir Oscar Wilde. Tölfræðingurinn Nassim Taleb segir „mistök bjarga mannslífum. Í hvert sinn sem flugvél hrapar minnka líkurnar á að flugvél hrapi aftur. Farþegaskipið Títanik bjargaði mannslífum því nú smíðum við stærri og stærri skip. Fjöldi fólks lést en í kjölfarið jukum við öryggi kerfisins – mistökin voru ekki til einskis.“

Snemma á síðasta ári afhentu Niels Johannesen og Bob Rijkers rannsóknarniðurstöður sínar Alþjóðabankanum. Komust þeir að því að þróunaraðstoð lýtur sömu lögmálum og óvæntur olíugróði. Allt að 15 prósent þróunaraðstoðar bankans endaði á leynilegum bankareikningum í skattaskjólum í kjölfar „gripdeildar ríkjandi stjórnmálafólks, embættismanna og vina þeirra“.

Hvernig brást Alþjóðabankinn við upplýsingunum? Með því að „auka öryggi kerfisins“ og bæta verklagið? Með því að læra af mistökunum? Nei. Bankinn reyndi að þagga málið niður.

Verðmæti mistaka

Mörgum misheppnaðist ætlunarverk sitt í nýafstöðnum kosningum til Alþingis. Fylkingar töpuðu fyrir andstæðingum, flokkar töpuðu atkvæðum og menn sætum. Ein stærstu mistökin voru þó framkvæmd kosninganna sjálfra. Talning atkvæða var klúður sem dregið hefur dilk á eftir sér.

Það er ekki að ástæðulausu sem Finnar fundu upp alþjóðadag mistaka. Þegar eitthvað misheppnast eigum við til að bregðast við eins og Alþjóðabankinn: Þegja yfir því og afneita staðreyndum. En þannig verðum við oft af dýrmætum tækifærum. Því í mistökum felast verðmæti.

Framkvæmd talningar og meðferð kjörgagna í Norðvesturkjördæmi eru afglöp sem ekki má taka af léttúð – trúverðugleiki stjórnarfarsins er í húfi. Svo virðist sem allflestir líti málið alvarlegum augum og að mistökin verði til þess að „auka öryggi kerfisins“.

Önnur og ekki síður alvarleg „mistök“ áttu sér hins vegar stað í kosningunum, sem þjónar lýðræðisins hafa látið óátalin.

Stuttu fyrir kosningar var tillögu Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata um jöfnun atkvæðavægis milli kjördæma felld á Alþingi. Lýðræðisnefnd Evrópuráðsins mælir með því að misvægi atkvæða eftir búsetu fari ekki yfir 10-15 prósent. Hér á landi er munurinn næstum 100 prósent.

Hann er holur hljómurinn í kjörnum fulltrúum sem tala um lýðræði af andakt á tyllidögum, en neita svo að laga ólýðræðislegan galla í kerfinu.

Fékkst þú heilt eða hálft atkvæði í nýliðnum kosningum? Það er tímabært að „mistökin“ í atkvæðavægi verði lagfærð og „öryggi kerfisins“ aukið.