Með ein­faldri laga­breytingu hefði verið hægt að leið­rétta mis­vægi at­kvæða á milli kjör­dæma fyrir al­þingis­kosningarnar í haust, þannig að þing­manna­fjöldi endur­spegli betur fylgi stjórn­mála­flokka. Guð­mundur Andri Thors­son flutti á­samt Birni Leví Gunnars­syni Pírata og Þor­björgu Sig­ríði Gunn­laugs­dóttur Við­reisn um það breytingar­­til­lögu við af­greiðslu frum­varps um kosninga­lög í októ­ber 2020. Meiri­hluti Vinstri grænna, Sjálf­stæðis- og Fram­sóknar­flokks kaus að fella til­löguna með liðs­styrk Mið­flokksins.

Ó­jafnt vægi at­kvæða er byggt inn í ís­lenska kosninga­kerfið þótt þróunin hafi góðu heilli verið í rétta átt. Það er mis­vægi á milli kjör­dæma og síðast­liðinn ára­tug einnig á milli flokka. Árið 1999 voru fjórum sinnum fleiri at­kvæði á bak við hvern þing­mann í Reykja­nes­kjör­dæmi en í Vest­fjarða­kjör­dæmi. Nú er munurinn á milli Suð­vestur­kjör­dæmis og Norð­vestur­kjör­dæmis „bara“ tveir á móti einum.

„Það er aug­ljóst að kerfið ræður ekki við það að jafna eftir flokkum þannig að flokkarnir fái þing­menn í sam­ræmi við fylgi sitt í landinu. Það hefur reyndar verið ljóst í mörg ár að þetta getur gerst. Þetta gerðist í rauninni í kosningunum 2013, 2016 og 2017,“ segir Ólafur Þ. Harðar­son, prófessor í stjórn­mála­fræði, í við­tali við RÚV. Hann bendir á að ýmist hafi Fram­sóknar­flokkurinn eða Sjálf­stæðis­flokkurinn fengið einu þing­sæti fleira en at­kvæða­hlut­fallið sagði til um.

Stefna Sam­fylkingarinnar er og hefur alltaf verið að vægi at­kvæði eigi að vera jafnt. Ein­faldasta leiðin til að leysa það er að gera landið að einu kjör­dæmi. Mér er ljóst að mörgum þætti það of stór biti að kyngja að fækka úr sex kjör­dæmum í eitt en jafn ljóst er að kjós­endur og stjórn­mála­­flokkar geta ekki búið við þetta mis­rétti til fram­tíðar. Í til­lögum stjórn­laga­ráðs er kveðið á um jafnt vægi at­kvæða en einnig aðra kjör­dæma­skipan en nú er. Ef til vill er tími kominn til að endur­skoða kjör­dæma­skipan frá grunni.

Höfundur er oddviti Samfylkingarinnar í Suðvestur- kjördæmi.