Flest syngjum við til að gleðjast yfir sigrum eða glíma við sorgina. Ást okkar á söng er auðvitað mismikil en margir finna áþreifanlega fyrir bættri líðan af söng og sönggleði. Söngur virðist leysa úr læðingi sams konar hormón og hreyfing og þarf ekki að deila um að hann hefur góð áhrif á innri líðan. Þetta þekkja þeir vel sem stunda t.d. kórsöng og þeir eru ófáir hér á landi. Því þarf ekki að hafa mörg orð um þá vellíðan sem kórsöngvarar finna jafnvel eftir langa og stranga kóræfingu og þrátt fyrir að hún fylgi í kjölfar langs vinnudags. Söngur er ekki eitthvað sem aðeins birtist okkur á tyllidögum eða við útfarir eða á sviðum söngleikhúsa. Hann er mörgum daglegt brauð og dagleg sáluhjálp.

Nú vill einmitt svo til að ég hef í starfi mínu sem söngkennari og skólastjóri Söngskóla Sigurðar Demetz orðið var við að talsverður fjöldi nemenda sem til okkar sækir hefur orð á vanlíðan á borð við kvíða og þunglyndi. Oft er um að ræða afleiðingar samfélagslegra þátta: Eineltis, ofneyslu áfengis eða lyfja, einmanaleika eða álags í skóla eða starfi. Við sem störfum við skólann höfum öll upplifað jákvæðar breytingar hjá þessum nemendum og raunar höfum við gert könnun á meðal þeirra sem sýndi að líðan þeirra eftir söngtíma var betri og sjálfsöryggi þeirra og sjálfsmynd breyttist til hins betra eftir söng- og raunar leiklistartíma sem er hluti af náminu hjá okkur.

Áhrif söngs á heilsufar virðast ekki hafa verið mikið rannsökuð en þó hefur það gerst nú á 21. öldinni að áhugi á þeim hefur aukist. Það kemur ekki söng- og tónlistarkennurum á óvart. Rannsóknir á tónlistarnámi hafa leitt í ljós að námsgeta eykst almennt við ástundun þess. Ýmsar uppgötvanir hafa verið gerðar á síðustu árum á sviði listnáms og í haust kom út skýrsla hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) um áhrif lista á heilsufar fólks. Niðurstaðan var afgerandi: Listræn þátttaka á borð við dans, söng, safnaheimsóknir og tónleikasókn bætir við víddum í lífi fólks sem bæta líkamlega sem andlega heilsu.

Núna í janúar sótti ég ráðstefnu í Bretlandi þar sem fjallað var um skýrsluna en aðalviðfangsefnið var söngur og andleg heilsa. Ég var svo lánsamur að vera meðal fyrstu umsækjenda um þátttöku en slegist var um síðustu sætin löngu áður en umsóknarfrestur rann út. Ráðstefnugestir voru allir frá Bretlandseyjum nema ég en þar mátti finna á sjötta tug fulltrúa sem voru þátttakendur í mjög mismunandi verkefnum. Verkefnin áttu samt öll sameiginlegt að nýta söng sem meðferðarúrræði, hvort sem um var að ræða vinnu í fangelsum, vinnu með ungu fólki með andleg vandamál og vinnu með eldri borgurum, svo að dæmi séu tekin.

Afstaða ráðstefnugesta var eindregið á sömu lund. Rannsaka þyrfti störf þeirra sem nýta sér söng til að bæta líðan skjólstæðinga sinna og auka þekkingu á þeim gæðum sem raunverulega fylgja því að syngja.

Niðurstöður WHO eru afgerandi og hvatningarorð stofnunarinnar afdráttarlaus. Sjálfur annast ég rekstur söngskóla sem engan veginn annar eftirspurn en ég er sannfærður um að margir sem sótt hafa nám í skólanum hafa bætt lífsgæði sín svo að það fylgir þeim um aldur og ævi. Ég vona að einnig framvegis geti skólinn veitt nemendum slík aukin lífsgæði og sömuleiðis áheyrendum þeirra en um árabil hefur ríkt frost í fjárveitingum til tónlistarnáms, þrátt fyrir að þörfin og eftirsóknin aukist stöðugt.