Heilbrigðiskerfið okkar er í mörgu nokkuð gott en sjúklega lélegt í of mörgu. Við viljum flest að það verði framúrskarandi gott en höfum ekki náð saman um leiðir að því marki.

Það má vafalaust bæta talsvert með stórauknu fjármagni en hart er sótt í sjóðinn okkar sameiginlega og ljóst að sóknin í hann mun harðna á næstu árum en margt mun verða út undan því sjóðurinn er laskaður eftir heimsfaraldurinn.

Það er því úr vöndu að ráða. Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Nágrannalöndin hafa glímt við þennan vanda og eru búin að þróa lausnir og bæta sitt heilbrigðiskerfi á undanförnum árum. Við getum lært af því og eigum að gera það.

Vandamálin

Lífstílssjúkdómar vegna ofþyngdar, ónógrar hreyfingar og ofneyslu orkuríkrar fæðu eru algengir, en þeir helstu eru áunnin sykursýki, háþrýstingur og hjartavandamál.

Margra mánaða og jafnvel meira en árs bið er eftir ýmsum aðgerðum svo sem liðskiptum, augnsteinaskiptum, krabbameinslækningum, hjartaþræðingum og offituaðgerðum. Skimun eftir krabbameinum er áfátt. Skortur er á hjúkrunarúrræðum. Yfirgengilegt álag er á bráðamóttöku. Of fá sjúkrarúm eru í landinu. Geðheilbrigðisþjónusta er ónóg . Misgott aðgengi er að heilbrigðisþjónustu eftir landshlutum og fleira mætti telja.

Kostnaður við hina ýmsu þjónustuþætti liggur ekki á lausu og hvata skortir því til að nýta hagkvæm úrræði þar sem vert væri.

Afleiðingar af ofangreindu eru styttri meðalævi fólks, færri ár við góða heilsu, tekjuskerðing og samfélagslegur kostnaður.

Þó að margt megi bæta með meira fjármagni er ekki útlit fyrir að svo mikið verði til ráðstöfunar úr ríkissjóði að verulegar framfarir verði í ofangreindu á næstu árum. Til þess þarf að laga kerfið, gera það heilbrigt.

Útgangspunktar

Við erum flest sammála um grundvallaratriðin:

Fjármögnum kerfið að mestu með skattfé. Allir fái heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Blandað kerfi ríkis- og einkareksturs.

Við þurfum því að endurhæfa kerfið innan þessa ramma.

Lausnirnar

Norðurlöndin hafa verið að innleiða viðbótar heilsutryggingar (samanber viðbótar lífeyrissparnaður). Um er að ræða valfrjálsa viðbót við opinberar sjúkratryggingar (sem kalla ætti heilsutryggingar) sem starfsmenn semja um við vinnuveitendur sína innan ramma sem stéttarfélög og stjórnvöld þurfa að innleiða.

Í Danmörku hafa um 80% starfsmanna í einkageiranum samið við vinnuveitanda sinn um viðbótar heilsutryggingu. Dæmigert iðgjald er aðeins um 6.000 kr. á mánuði pr. starfsmann. Ekkert er dregið af starfsmanninum en upphæðin er tekjuskattsskyld. Hvatinn er lægri launatengd gjöld og betri heilsa starfsfólks.

Semja má um að viðbótar heilsutryggingin gildi fyrir maka og börn.

Viðbótar heilsutryggingar tryggja stuttan biðtíma eftir skoðun og meðferð hjá einkareknum heilsustofnunum ef á þarf að halda. Það léttir álagi af opinberum heilsustofnunum. Algengt er að skilmálar kveði á um hámarks biðtíma eftir valkvæðum aðgerðum svo sem hnjá-, mjaðma- og augnsteinaskiptum. Fyrir starfsmenn bætir þetta heilsu og líðan og fyrir vinnuveitendur flýtir þetta fyrir endurkomu starfsmanna eftir heilsubrest.

Um fjórðungur Dana nýtti viðbótar heilsutryggingar sínar árið 2019.

Í Svíþjóð hafa um 700.000 manns tekið viðbótar heilsutryggingar. 70% tryggingariðgjalds er greitt af vinnuveitanda. Mörg stéttarfélög bjóða meðlimum viðbótar heilsutryggingar.

Vernd viðbótar heilsutrygging er yfirleitt yfirgripsmikil. Hún tekur gjarnan til ráðgjafar varðandi fyrirbyggjandi heilsugæslu, skipulags umönnunar og kostunar umönnunar heilbrigðissérfræðinga þegar á reynir. Einnig fjárhagsstuðnings þegar um tekjufall er að ræða vegna lengri veikindaleyfa, bætir sem dæmi hluta af tekjufalli fólks í veikindaleyfum umfram samningsbundinn rétt upp í 90%.

Tryggingafélögin sem bjóða auka heilsutryggingar keppa um að bjóða góða skilmála og hagstæðar bætur. Innihaldið er að hluta breytilegt en að mestu sambærilegt, það er fyrirbyggjandi heilsuráðgjöf, umönnunaráætlun og kostun heilbrigðisþjónustu. Forvarnir og endurhæfing eru oft með.

Tryggingafélögin eru gjarnan með samstarfssamninga við einkareknar læknastofur en sum sérhæfðari umönnun er eingöngu veitt af stóru sjúkrahúsunum í Svíþjóð sem allir hafa sama aðgang að.

Árið 2018 voru næstum 14% allra starfsmanna með viðbótar heilsutryggingu. Algengastar eru heilsutryggingar í byggingariðnaði, þar sem 20% eru með viðbótar heilsutryggingar. Í fjármálaþjónustu eru 19% með viðbótar heilsutryggingar og í smásölu 14%.

Viðbótar heilsutrygging stuðlar að því að fólk fái viðeigandi umönnun fljótt þegar þörf gerist og léttir álaginu af ríkisrekna kerfinu. Tryggingarnar ná til alls atvinnulífsins og þar með til alls almennings. Þær efla heilbrigðisþjónustuna heilt yfir því þær veita auknu fjármagni og mikilvægum hvötum í kerfið.

Auk ofangreinds fá heilbrigðisstofnanir í Svíþjóð að hluta til greitt eftir árangri og gæðum þjónustunnar sem þær veita, eftir mælingum og endurgjöf notenda. Meðal verkfæra í þessu sambandi er heimasíða þar sem árangur er borinn saman, sjá www.munin.vgregion.se. Einkareknar stöðvar skora sumar fyrir ofan opinberar stöðvar eins og sýnir sig hér með einkareknar heilsugæslustöðvar.

(Óbein) samkeppni um viðskiptavini (sjúklinga) og vinnuafl (heilbrigðisstarfsfólk) bætir almennt þjónustu fyrirtækja (heilbrigðisstofnana). Þetta þarf að nýta í heilbrigðisþjónustunni eins og öðrum greinum. Það næst með ofangreindum hvötum og blöndu einkareksturs og ríkisreksturs.

Aðgerðir

Stéttarfélög, atvinnurekendur og stjórnvöld þurfa að semja um innleiðingu valkvæðra viðbótar heilsutrygginga, sem koma til viðbótar núvarandi sjúkratrygginga (heilsutrygginga).

Stjórnvöld þurfa að innleiða greiðslukerfi til veitenda heilbrigðisþjónustu, hvort sem þeir eru ríkiseða einkareknir, eftir fjölda aðgerða og gæðum aðgerða og þjónustu samkvæmt mælingum og endurgjöf notenda heilbrigðisþjónustu.

Þetta myndi veita hærra hlutfall af þjóðarframleiðslunni í heilbrigðismál og færa heilbrigðisþjónustuna í það horf sem almenningur vill að hún komist í.