Árið 2018 var haldið heilbrigðisþing þar sem til umfjöllunar var stefnumótun í heilbrigðisþjónustu. Þingið sóttu bæði leikir og lærðir og varð afrakstur þingsins hluti af Heilbrigðisstefnu sem samþykkt var á Alþingi í júní. Á morgun verður Heilbrigðisþing 2019 þar sem fjallað verður um siðferðileg gildi og forgangsröðun. Heilbrigðisráðherra hyggst nota umfjöllun þingsins sem fóður inn í tillögu til þingsályktunar um siðferðileg gildi og forgangsröðun.

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi slíkrar umræðu í ljósi þess að þörf fyrir heilbrigðisþjónustu og þar með kostnaður fer sífellt vaxandi. Mikilvægt er að ná sem bestri sátt í samfélaginu um hvernig skuli forgangsraða fjármunum og þjónustu þannig að virði heilbrigðisþjónustu verði sem mest (virði = árangur/kostnaður). Siðfræðileg stefnumörkun er mikilvæg í stefnumótun yfirvalda en getur einnig nýst læknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnun í daglegu starfi. Þá er hún mikilvæg til að efla gegnsæi og traust við veitingu heilbrigðisþjónustu.

Umfjöllun þingsins verður skipt í þrjá efnisþætti: 1. Mannhelgi og virðing fyrir mannlegri reisn. 2. Þörf og samstaða. 3. Hagkvæmni og skilvirkni. Fulltrúar notenda, fræðimanna, stjórnenda og embættismanna flytja stutt og áhugaverð erindi. Jafnframt fara fram almennar en markvissar umræður. Sérstakur gestur þingsins er Göran Hermerén, fyrrverandi prófessor í læknisfræðilegri siðfræði við Háskólann í Lundi.

Þingið er öllum opið meðan húsrúm leyfir og eru þeir sem láta sig heilbrigðismál varða hvattir til að taka þátt. Það verður haldið á hótel Hilton Reykjavík Nord­ica föstudaginn 15. nóvember kl. 8.30-16. Aðgangur er ókeypis en skráning er nauðsynleg á heil­brigdis­thing.‌is. Þar er að finna dagskrá og til að tryggja aðgengi sem flestra verður táknmálstúlkun og þinginu streymt, hægt verður að senda inn spurningar og ábendingar.

Kæru landsmenn, látum okkur málið varða, þannig gerum við góða heilbrigðisþjónustu enn betri.