Það má segja að við séum á hverjum degi heilaþvegin. Hugtakið heilaþvottur hefur hingað til verið notað yfir skipulagðar aðferðir til að móta skoðanir fólks. Árið 1966 velti Jóhann Hannesson fyrir sér í þanka­rúnum Morgunblaðsins hvort það væri möguleiki að heilaþvo menn svo að öll hugsun þeirra gjörbreytist frá rótum og vísaði til þess að bláir menn yrðu rauðir af völdum þvottamanna – snérust frá kapítalisma til kommúnisma. Kannski er eitthvað til í því sem hann sagði, eins og að sölumenn noti sálrænar undirskynjunaraðferðir, svo að neytendur hlýði þeim ósjálfrátt.

Nú lítur út fyrir að við séum einnig heilaþvegin á næturnar – bókstaflega. Nýverið birtist vísindagrein í tímaritinu Science og magnað myndband þar sem við sjáum hvernig heilinn virðist skolaður á nóttunni. Bylgjur af heila- og mænuvökva gusast yfir heilann á 20 sekúndna fresti eins og stór alda sem hrífur allt með sér.

Við vitum að frumurnar okkar vinna liðlangan daginn og við það safnast upp úrgangsefni sem geta mögulega skaðað okkur ef þau eru ekki hreinsuð burt. Nú er komin fyrsta sýnilega vísbendingin um að þegar við lúrum í djúpum svefni þá séu þessi efni skoluð út.

Þátttakendurnir voru 23 til 33 ára og nú er spurning hvort sama eigi við um þá sem eldri eru. Getur verið að þar sem við sofum ekki eins djúpt og vel í ellinni þá verði okkur hættara við heilabilun og öðrum heilasjúkdómum?

Allavega er komin ærin ástæða til að láta svefninn ganga fyrir, ekki aðeins til að vera fær í flestan sjó næsta dag heldur til að hafa heilann hreinan og minnka líkur á að sölumönnum takist að heilaþvo okkur.