Sigmundur Ernir Rúnarsson hélt upp á að vera útnefndur heiðursfélagi Blaðamannafélags Íslands með því að birta stórfurðulega forystugrein í Fréttablaðinu 7. maí 2022. Textinn er að stórum hluta dæmalaust rugl og efnislega langt frá því að standast lágmarkskröfur sem gera verður til fjölmiðlafólks um að skilja á milli staðreynda, skáldskapar og eigin heilaspuna.

Mikið liggur við. Þetta er greinilega hugsað sem innlegg ritstjórans í þjóðmálaumræðu vegna kosninganna á laugardaginn kemur. Hann hefði betur verið gagnrýnni á heimildarmann sinn í Eyjum en ef til vill voru refirnir einmitt skornir í þeim tilgangi að hagræða sögunni að vild, skítt með staðreyndir.

Stórbrotnasta fullyrðing ritstjórans er að Vinnslustöðin og Ísfélagið hafi „raðað sínu fólki“ á framboðslista Sjálfstæðisflokksins til sveitarstjórnar í Eyjum. Sjálfstæðismenn efndu til prófkjörs og þar tóku 937 manns þátt í að skipa frambjóðendur á lista.

Níu af hverjum tíu settu Eyþór, útgerðarstjóra Ísfélagsins, í eitt af efstu sætum og liðlega átta af hverjum tíu settu Rut, dóttur Haraldar Gíslasonar, eins aðaleiganda Vinnslustöðvarinnar, í eitt af efstu sætunum. Þau fengu yfirgnæfandi flest atkvæði í prófkjörinu.

Svo er það fjölmiðlaþátturinn í naglasúpu ritstjórans. Hann skrifar:

[Vinnslustöðin og Ísfélagið] „keyptu hvort sinn ríkjandi hlut í bæjarblaðinu Eyjafréttum og sameinuðust um að koma rétta fólkinu að ritvélinni.“

Það sem gerðist 2019 var fyrir opnum tjöldum og frá málavöxtum var skilmerkilega greint. Ritstjórinn og heimildarmaður hans í Eyjum hefðu auðveldlega getað flett því upp og hafa kannski gert en ákveðið að leiða hjá sér. Skítt með staðreyndir.

Vinnslustöðin hefur um árabil átt hlut í fjölmiðlafélaginu Eyjasýn. Hlutafjáraukning eigenda þess 2019 hafði nákvæmlega ekkert með úrslit kosninga 2018 að gera heldur stefndi reksturinn í þrot. Eigendur vildu hins vegar reyna til þrautar að halda starfseminni gangandi.

Í Fréttum, blaði sem Eyjasýn gefur út í Eyjum, var haft eftir mér í ársbyrjun 2020:

„Svo vil ég endilega að halda því til haga að Vinnslustöðin tók þátt í því á árinu 2019 að stuðla að áframhaldandi útgáfu Frétta, bæði blaðs og vefs. Vinnslustöðin var um árabil afskiptalaus hluthafi í Eyjasýn en stóð frammi fyrir því 2019 að útgáfunni yrði hætt. Við og meðeigendur okkar ákváðum að stuðla að framhaldslífi Eyjasýnar, ekki í okkar þágu heldur í þágu alls samfélagsins í Eyjum.

Vinnslustöðin ætlar sér hvorki að koma að fjölmiðlarekstri til langframa né hafa aðra skoðun á ritstjórnarstefnu Eyjasýnar en þessa: Fréttir eiga og verða að þora að fjalla um málefni Vestmannaeyja í víðasta skilningi, líka það sem telst ef til vill „viðkvæmt“.

Þar á ekki að undanskilja neitt, hvorki í bæjarmálapólitík, starfsemi fyrirtækja, menningu, félagslífi né hvaðeina annað en starfa auðvitað á hlutlægum og faglegum forsendum.

Nú er til að mynda mikil umræða í samfélaginu um verðmyndun sjávarafurða og tengist meðal annars Vinnslustöðinni. Ég ætlast beinlínis til þess að Fréttir hafi kjark til að fara inn í þá umræðu eins og annað, setji sig inn í málið, spyrji forystumenn sjómanna og sjávarútvegsfyrirtækjanna, opinberar stofnanir, stjórnmálamenn í sveitarfélaginu og á landsvísu, upplýsi um mismunandi sjónarmið og greini mál á eigin forsendum.

Slíkt er hlutverk fjölmiðla. Þeir segja fréttir og fjalla um mikilvæg málefni á hverjum tíma. Vestmannaeyjar yrðu fátækari ef rödd Frétta heyrðist ekki lengur. Ég bið um málefnalega, upplýsandi og gagnrýna umfjöllun. Þar á allt að vera undir, líka starfsemi Vinnslustöðvarinnar og annarra eigenda Eyjasýnar!“

Ég hef ekki skipt mér af ritstjórnarstefnu Eyjasýnar, hvorki fyrr né síðar, en get sagt það nú að mér varð ekki að þeirri ósk minni að Eyjafréttir hefðu kjark til að fjalla með málefnalegum hætti um verðlagsmál sjávarútvegsins.

Ég bið ekki um neina vægð sjávarútvegsfyrirtækjum til handa í fjölmiðlum og óska ekki eftir öðru en málefnalegri, upplýsandi og gagnrýnni umfjöllun um þessa atvinnugrein líkt og annað. Og umfram allt að staðreyndir séu í heiðri hafðar en ekki hugarburður í annarlegum tilgangi á borð við þann sem nýbakaður heiðursfélagi Blaðamannafélagsins lætur sér sæma að byggja á í forystugrein sinni. Staðreyndir sem hann hefði getað fengið með stuttu símtali eða tölvupósti.

Vinnslustöðin kom við sögu í Kastljósþætti vorið 2012 þar sem sakir um gróf lögbrot voru bornar á fyrirtækið. Á daginn kom að allt sem þar var fullyrt reyndist rakalaus þvættingur, hrein og klár lygi. Ábyrgð á þessu báru Helgi Seljan, nú titlaður „rannsóknaritstjóri“ Stundarinnar, og Sigmar Guðmundsson, nú alþingismaður Viðreisnar. Hvorki þeir né RÚV hafa beðist afsökunar.

Fróðlegt væri nú og upplýsandi ef ritstjóri Fréttablaðsins rifjaði upp þessa fréttafölsun í forystugrein við tækifæri. Sigmar myndi ábyggilega leggja honum lið sem heimildamaður um baktjaldamakk Kastljóss, Seðlabankans og þáverandi ríkisstjórnar. Er það annars ekki svo að Viðreisn sé í göngufæri frá Fréttablaðinu?

Höfundur er framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum