Í kosningabaráttunni í Bandaríkjunum á síðasta ári átti Donald Trump, þáverandi forseti, til að hæðast að yfirlætislausum andstæðingi sínum og uppnefna hann „sleepy Joe“ eða Joe syfjulega. Hinn hægláti Joe Biden sór eið í embætti forseta Bandaríkjanna síðastliðinn miðvikudag í viðhöfn sem reyndist jafntíðindalítil og vonir stóðu til. Hann var þó ekki eini þreytti þjóðarleiðtoginn sem komst í fréttirnar í vikunni.

Náinn samstarfsmaður Borisar Johnson, forsætisráðherra Bretlands, greindi frá því á dögunum að Boris ætti til að fá sér orkublund um eftirmiðdaginn. Johnson leggur sig að jafnaði í líma við að líkjast sem mest forvera sínum í starfi, Winston Churchill. Þótt Churchill hafi verið þekktur fyrir að fá sér dúr á daginn sem hann sagði „heilagt algleymi sem endurnýjaði lífskraftinn“ – (hann var líka þekktur fyrir að lesa fyrir ritaranum sínum í sjóðheitu baði með kampavín við hönd) – tók Johnson samlíkinguna óstinnt upp.

Biden Lokbrá

Við upphaf kórónaveirufaraldursins, þegar fólki var fyrst gert að húka heima í sóttvarnaskyni, kollreið öllu hugmyndin um sjálfsbetrun með framtakssemi. Það var ekki nóg að læra að baka súrdeigsbrauð. Það þurfti líka að skrá sig í endurmenntun, jafnvel doktorsnám, læra nýtt tungumál, skapa, skrifa, lesa, mála, prjóna, hlaupa maraþon á svölunum, skipuleggja skápana og gera eitthvað sniðugt á TikTok.

Svo kann þó að vera að stærsta sjálfsumbótin hafi átt sér stað þegar við þvert á móti gerðum ekki neitt.

Rannsóknir víða um heim sýna að fólk svaf meira á síðasta ári en það gerir að jafnaði. Í Bretlandi, þar sem Boris Johnson þvertekur fyrir að hafa fengið sér blund, sögðust þrír af hverjum fimm hafa sofið betur í fyrstu bylgju faraldursins en þeir gerðu áður. Samkvæmt niðurstöðum úr vöktun Embættis landlæknis á heilsu og líðan Íslendinga, fækkaði þeim sem sváfu sex tíma eða skemur á nóttu í fyrstu bylgju faraldursins.

„Svefn er ein af undirstöðum hamingju okkar, velferðar og langlífis,“ fullyrti Matthew Walker í viðtali, en hann er prófessor við Berkeley-háskóla og höfundur alþjóðlegu metsölubókarinnar Þess vegna sofum við, sem kom einmitt út í íslenskri þýðingu í fyrstu bylgju kórónaveirufaraldursins. „Allir helstu sjúkdómar sem hrjá manninn tengjast að hluta svefnvenjum: Alzheimer, offita, sykursýki og geðsjúkdómar.“ Matthew sagði svefn mikilvægari en mataræði og hreyfingu. „Ef einstaklingi er bannað í einn sólarhring að stunda líkamsrækt, borða og sofa, hvað veldur mestum skaða? Skortur á svefni.“

Leonardo da Vinci, Bill Clinton, John F. Kennedy og Salvador Dalí eru allir þekktir fyrir að hafa fengið sér orkublund. Kostir orkublunds hafa ekki verið rannsakaðir til hlítar. Margt bendir þó til þess að þeir geti verið gagnlegir. Rannsókn sem gerð var af NASA sýnir að afköst starfsfólks jukust um 34% eftir orkublund og athyglisgáfan um 54%. Í bókinni Þess vegna sofum við, segir að lúr auki getu heilans til að læra nýja hluti um 15-20%.

Donald Trump hefur á réttu að standa. Rólyndi Joe Biden er sljóvgandi. Ég dottaði yfir innsetningarathöfninni hans. En kannski eru léttar hrotur um hábjartan dag ekki veikleiki, eins og Boris Johnson virðist halda, heldur þvert á móti styrkleiki.

Svefnleysi getur skert hæfni okkar til að aka bíl jafnmikið og áfengi. Svefnleysi veldur því að greindarvísitala einstaklinga lækkar. Tilraunir á rottum leiddu í ljós að án svefns drápust þær eftir tíu til þrjátíu daga. Sem einstaklingar höfum við gott af auknum svefni. Eftir fjögur andvökuár af valdatíð æsingamannsins Donalds Trump, kann að vera að „sleepy Joe“ – eða Biden Lokbrá – sé einmitt það sem veröldin þarfnast mest.